með öllum sínum áskorunum. Oft finnst mér eins og ég sé í allsherjar prófi og viti ekkert hvernig mér gengur. Eins og kennarinn sé sá eini sem viti hvernig einkunnagjöfin er og þó ég geri mitt besta þá hafi ég ekki hugmynd um það hvort það er nógu gott til að standast prófið.
Og ef ykkur finnst þessi "opnunarsetning" eitthvað undarleg þá get ég fullvissað ykkur um að mér finnst það líka. Eiginlega veit ég ekki alveg hvaðan hún kom. Ég er samt ekki í neinni meiriháttar lífskrísu, bara minni venjulegu krísu :D
Hins vegar er ýmislegt að gerast hjá fólkinu í kringum mig. Sá gleðilegi atburður gerðist að mamma fékk pláss á hjúkrunarheimili. Fyrir rúmum mánuði síðan vorum við Valur í sumarfríi á Spáni. Daginn fyrir brottför fékk ég símtal og var tilkynnt að það væri laust pláss á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Þarnæsta dag vorum við komin á fullt að flytja mömmu, svo þetta gekk mjög hratt fyrir sig. Hálfum mánuði síðar komu systkini mín til landsins og við tæmdum íbúðina hennar mömmu á fjórum dögum. Ég tók nú reyndar bara þátt í þremur þeirra, þá var orðið tómt á tankinum hjá mér.
Það er samt mesta furða hvað maður getur afrekað þegar þörf er á - með þeim fyrirvara að maður tekur þá "fallinu" sem á eftir kemur. Það tók mig tvær vikur að jafna mig en það gæti nú haft eitthvað með það að gera að ég var búin að vera með leiðinda víruspesti í 2 mánuði þar á undan. Endaði á því að missa röddina algjörlega og langar ekkert sérstaklega að upplifa það aftur.
Andri, Freyja og Matthías eru að flytja til Dubai. Þau hjónin voru bæði að vinna hjá Wow air, hann flugmaður og hún flugliði og við gjaldþrot flugfélagsins urðu þau bæði atvinnulaus. Ég reyndi að horfa á björtu hliðarnar, nokkuð sem er mér ekki eðlislægt, og vonaði að ný ævintýri biðu þeirra. Ekki er samt um auðugan garð að gresja í atvinnumálum fyrir flugmenn á Íslandi en eftir nokkurra mánuða atvinnuleysi fékk Andri vinnu hjá Emirates flugfélaginu. Hann fór út til Dubai lok júlí og Freyja og Matthías munu svo fylgja honum þegar hitastigið fer aðeins að lækka þarna úti en júlí og ágúst eru mjög heitir og búið að vera í kringum 45 stiga hiti. Við Valur getum svo vonandi heimsótt þau í vetur, það væri nú aldeilis gott að komast úr myrkrinu og kuldanum í sólina og hitann.
Hrefna og fjölskylda eru búsett hér á Akureyri núna. Eftir rúm 12 ár í Danmörku langaði Hrefnu að prófa að búa á Íslandi, svo þau komu í byrjun febrúar. Hún fékk vinnu á sjúkrahúsinu og maðurinn hennar er í 50% fjarvinnu hjá fyrirtækinu sem hann vann hjá í Danmörku. Hann er forritari svo það hentar vel. Börnin fengu pláss á Iðavelli og eru alsæl þar. Það er ósköp notalegt að hafa þau svona nálægt og geta notið samvista við þau eftir því sem heilsa og hentugleikar leyfa.
Valur er alltaf að vinna á Læknastofum Akureyrar. Auk þess gerir hann stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsinu og fer ca einu sinni í mánuði á Sauðárkrók og Húsavík yfir vetrartímann. Hann hefur aldrei verið hressari og ég er ótrúlega lánsöm að hafa eiginmanninn svona fullan af orku þegar ég sjálf er svona orkulaus.
Hvað mig varðar þá held ég áfram mínu basli. Alltaf að vona að einhvern daginn takist mér að finna leið út úr þessu versta vefjagigtarástandi. Kannski kemur að því, hver veit :)