þriðjudagur, 3. september 2019

Lystigarðurinn eða sófinn?

Þegar ég vaknaði í morgun var vinkona mín vefjagigtin mætt á svæðið, tvíefld. Ekki að hún hafi svo sem farið neitt, hún er bara mis öflug, svona eins og fellibylir hafa misjafnan styrk. Ég fór samt í morgunsundið og sá ekki eftir því, enda dásemdarsólskin úti. Þurfti reyndar að skafa bílrúðuna svo það hefur greinilega fryst í nótt.
Þegar ég kom heim úr sundinu og var búin að borða morgunmat þá var sófinn farinn að kalla ansi hátt á mig. EN - það er ekki á hverjum degi sem sólin skín og ég veit fátt verra en liggja í gigtarkasti í sófanum í fallegu veðri. Þannig að ég tók mig saman í andlitinu, setti makrólinsu á myndavélina og ók í Lystigarðinn.

Fékk reyndar símtal frá vinkonu minni akkúrat þegar ég var að leggja bílnum og spjallaði aðeins við hana áður en ég fór í garðinn. Fann að formið var nú ekkert æðislegt og splæsti á mig kaffibolla sem ég drakk úti í sólinni. Rölti svo um garðinn í leit að myndefni.  
Mér finnst skemmtilegast að eltast við birtuna, þ.e.a.s. finna sólargeisla sem ná að brjóta sér leið milli greina og trjáa og skína nánast lárétt á plöntur og blóm. Svo gengur náttúrulega misvel að fanga fegurðina. En ég gleymi mér við þessa iðju og dvel í núvitund á meðan og það er bara dásamlegt :)  

P.S. Nú er ég farin í sófann ;)


þriðjudagur, 20. ágúst 2019

Lífið - þetta dásamlega líf



með öllum sínum áskorunum. Oft finnst mér eins og ég sé í allsherjar prófi og viti ekkert hvernig mér gengur. Eins og kennarinn sé sá eini sem viti hvernig einkunnagjöfin er og þó ég geri mitt besta þá hafi ég ekki hugmynd um það hvort það er nógu gott til að standast prófið.

Og ef ykkur finnst þessi "opnunarsetning" eitthvað undarleg þá get ég fullvissað ykkur um að mér finnst það líka. Eiginlega veit ég ekki alveg hvaðan hún kom. Ég er samt ekki í neinni meiriháttar lífskrísu, bara minni venjulegu krísu :D

Hins vegar er ýmislegt að gerast hjá fólkinu í kringum mig. Sá gleðilegi atburður gerðist að mamma fékk pláss á hjúkrunarheimili. Fyrir rúmum mánuði síðan vorum við Valur í sumarfríi á Spáni. Daginn fyrir brottför fékk ég símtal og var tilkynnt að það væri laust pláss á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Þarnæsta dag vorum við komin á fullt að flytja mömmu, svo þetta gekk mjög hratt fyrir sig. Hálfum mánuði síðar komu systkini mín til landsins og við tæmdum íbúðina hennar mömmu á fjórum dögum. Ég tók nú reyndar bara þátt í þremur þeirra, þá var orðið tómt á tankinum hjá mér.

Það er samt mesta furða hvað maður getur afrekað þegar þörf er á - með þeim fyrirvara að maður tekur þá "fallinu" sem á eftir kemur. Það tók mig tvær vikur að jafna mig en það gæti nú haft eitthvað með það að gera að ég var búin að vera með leiðinda víruspesti í 2 mánuði þar á undan. Endaði á því að missa röddina algjörlega og langar ekkert sérstaklega að upplifa það aftur.

Andri, Freyja og Matthías eru að flytja til Dubai. Þau hjónin voru bæði að vinna hjá Wow air, hann flugmaður og hún flugliði og við gjaldþrot flugfélagsins urðu þau bæði atvinnulaus.  Ég reyndi að horfa á björtu hliðarnar, nokkuð sem er mér ekki eðlislægt, og vonaði að ný ævintýri biðu þeirra. Ekki er samt um auðugan garð að gresja í atvinnumálum fyrir flugmenn á Íslandi en eftir nokkurra mánuða atvinnuleysi fékk Andri vinnu hjá Emirates flugfélaginu. Hann fór út til Dubai lok júlí og Freyja og Matthías munu svo fylgja honum þegar hitastigið fer aðeins að lækka þarna úti en júlí og ágúst eru mjög heitir og búið að vera í kringum 45 stiga hiti. Við Valur getum svo vonandi heimsótt þau í vetur, það væri nú aldeilis gott að komast úr myrkrinu og kuldanum í sólina og hitann.

Hrefna og fjölskylda eru búsett hér á Akureyri núna. Eftir rúm 12 ár í Danmörku langaði Hrefnu að prófa að búa á Íslandi, svo þau komu í byrjun febrúar. Hún fékk vinnu á sjúkrahúsinu og maðurinn hennar er í 50% fjarvinnu hjá fyrirtækinu sem hann vann hjá í Danmörku. Hann er forritari svo það hentar vel. Börnin fengu pláss á Iðavelli og eru alsæl þar. Það er ósköp notalegt að hafa þau svona nálægt og geta notið samvista við þau eftir því sem heilsa og hentugleikar leyfa.

Valur er alltaf að vinna á Læknastofum Akureyrar. Auk þess gerir hann stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsinu og fer ca einu sinni í mánuði á Sauðárkrók og Húsavík yfir vetrartímann. Hann hefur aldrei verið hressari og ég er ótrúlega lánsöm að hafa eiginmanninn svona fullan af orku þegar ég sjálf er svona orkulaus.

Hvað mig varðar þá held ég áfram mínu basli. Alltaf að vona að einhvern daginn takist mér að finna leið út úr þessu versta vefjagigtarástandi. Kannski kemur að því, hver veit :)






fimmtudagur, 9. maí 2019

Fagnaði kannski aðeins of snemma


en er ekki alltaf betra að láta bjartsýni ráða för?

Í síðasta pistli skrifaði ég um það hvað ég væri orðin svakalega hress og fín - og mér leið svo sannarlega þannig á þeim tímapunkti. Eiginlega var ég svo ánægð með mig að ég hugsaði að nú væri lag að gera gott ennþá betra. Þannig að ég skráði mig á námskeið hjá Hildi M. Jónsdóttur þar sem markmiðið var að taka mataræðið í gegn og ná enn betri heilsu fyrir vikið. Ég byrjaði á námskeiðinu í lok september og get hiklaust mælt með því. Það voru margar konur sem fengu ótrúlegan bata á tiltölulega stuttum tíma og var virkilega ánægjulegt að verða vitni að því.

Hins vegar fékk ég ekki þann bata sem ég hafði vonast eftir. Að minnsta kosti ekki ennþá en ég held í vonina 😊 Veturinn var satt best að segja býsna erfiður, bæði andlega og líkamlega, en með hækkandi sól er andlega hliðin á uppleið aftur svo það er nú gott.

Námskeiðið var þó engan veginn til einskis. Valur ákvað að taka þátt í breyttu mataræði með mér og hann hefur aldrei verið jafn orkumikill. Svo það er nú aldeilis flott! Hvað mig varðar þá er meltingin betri og ég sef betur. Húðin er mýkri og ég fæ ekki lengur þurrkubletti á hendurnar. Ég hef ekki fengið kvef í allan vegur og það er minna slím í öndunarvegi hjá mér. Þreytudraugurinn ætlar hins vegar ekki að yfirgefa mig svo glatt og vefjagigtarverkirnir eru enn til staðar þó þeir hafi eitthvað minnkað.

Það sem ég hef helst lært á þessari 7 mánaða vegferð er að það dugar ekki að borða hollt ef maður nær ekki að vinna úr neikvæðum áhrifum streitu á líkamans. Álag og hvers kyns áreiti sem veldur steitu er augljóslega minn versti óvinur hvað heilsuna snertir. Þetta eru ekki nýjar upplýsingar (þarf ekki annað en gúggla orðið "streita" á blogginu mínu og þá sést að ég hef oft talað um þetta áður). 

Þannig að nú þarf ég að vera duglegri að nýta mér ólíkar aðferðir til að vinna gegn streitu!