Ég spjallaði við konu í sundi í morgun. Umræðan barst að því að í fyrramálið væri sundlaugin lokuð frá 8-13. Konan sagði að hún færi þá í staðinn í lengri göngutúr en venjulega. Ég spurði hana hvort hún væri dugleg að ganga úti. Já, hún sagðist vera það. Og vinna í leiðinni. Ég hváði.
Jú hún safnar flöskum í þessum göngutúrum. Stundum finnur hún eina, stundum tuttugu. En margt smátt gerir eitt stórt, og fyrir ágóðann af flöskusöfnuninni getur hún leyft sér ýmislegt sem hún gæti ekki annars. Svo sem keypt sér nýja skó, farið á kaffihús og stundum í nudd.
Fólk spyr hana hvort hún skammist sín ekki fyrir þetta, en það gerir hún ekki, nema síður sé. Lítur þannig á að hún sé að hreinsa bæinn af rusli. Mest sér hún eftir því að hafa ekki byrjað á þessu löngu fyrr.
En hvað skyldi það vera sem hvetur konu á hennar aldri til að safna flöskum og selja þær fyrir einhverjar krónur? Lágar greiðslur úr lífeyrissjóði!
Ég er sammála konunni um að hún þurfi ekki að skammast sín fyrir að tína flöskur.
Mér finnst hins vegar skelfilegt að fólk þurfi að safna flöskum til þess að geta leyft sér örlítinn „lúxus“ í lífinu.