miðvikudagur, 8. ágúst 2018

Stöðuuppfærsla


Það er orðið langt síðan ég hef bloggað á persónulegum nótum. Síðasta bloggfærsla þar sem ég fjallaði um sjálfa mig var í júní 2017. Ég hef oft byrjað að skrifa en ekki klárað og þar af leiðandi ekki birt viðkomandi færslu. Samt finnst mér eins og ég „þurfi“ að blogga. Get ekki alveg útskýrt hvers vegna en á námskeiði í skapandi skrifum sem ég fór einu sinni á hjá Þorvaldi Þorsteins þá talaði hann um að með því að skrifa væri maður að gefa öðrum rödd. Við höldum stundum að við séum þau einu sem erum að glíma við ákveðna hluti en ef við tjáum okkur um þá kemur í ljós að aðrir heyra samhljóm og með því að tjá okkur erum við að gefa þeim rödd líka. Þetta fannst mér fallegt! Kannski get ég notað þetta viðhorf sem „afsökun“ til að tjá mig um mín hugðarefni? 

Hvað um það, þessi pistill átti að vera eins konar yfirlit yfir það hver staðan á mér er í dag. Nú eru komin rúm fjögur ár síðan ég hef verið í launaðri vinnu utan heimilis (fyrir utan bókhaldsvinnu fyrir Val sem fer fram innan heimilis) og vel þess virði að skoða hvaða áhrif það hefur haft á heilsufar mitt, bæði líkamlegt og andlegt. 

Í stuttu máli þá líður mér betur! Sem er hið besta mál :) Ekki 100% betur en sennilega 70%. Alla vega að mínu mati. Stundum þegar ég tala um það við Val að ég sé margfalt hressari þá bendir hann mér á að ég hafi nú verið svona og svona undanfarnar vikur en þá er ég búin að gleyma því ;) Þannig að minni mitt er kannski ekki upp á marga fiska - en í alvöru talað þá er ég smátt og smátt að safna kröftum. 

Ég á orðið miklu fleiri góða daga en slæma og bara það er kraftaverk! Vissulega þarf ég að „borga fyrir“ alls konar útstáelsi s.s. ferðalög og annað sem hefur aukið álag í för með sér, en það eru kannski nokkrir dagar (vika?) í stað margra vikna áður. Og já stundum dett ég í lengri tímabil sem eru ekki góð en það eru ekki vikur eða mánuðir sem ég ligg á sófanum dag eftir dag. 

Aukin orka hefur í för með sér aukin leiðindi ef svo má að orði komast, eins fáránlega og það nú hljómar. Mig fer að langa að nýta þessa nýfengnu krafta mína í annað en sundferðir, heimilisstörf, ferðalög og ljósmyndun. Best væri náttúrulega ef ég gæti á einhvern hátt unnið fyrir mér þannig að ég gæti sjálf stjórnað tíma mínum og lagað álagið að líðaninni hverju sinni. Ennþá vantar samt eitthvað uppá til að ég fylgi eftir þeim hugmyndum sem ég hef þó fengið að slíkri vinnu. Vandamálið er að þegar maður hefur verið atvinnulaus þetta lengi þá fer maður hálf partinn í dvala og dagarnir líða, hver öðrum líkir, án þess að maður hafi sig í að framkvæma neitt nema þetta venjulega. 

Ég er ekki að kvarta. Ég veit að þetta hefst á endanum. Ég þarf bara að finna minn farveg og fylgja honum! 

þriðjudagur, 15. maí 2018

Að eiga fyrir nýjum skóm


Ég spjallaði við konu í sundi í morgun. Umræðan barst að því að í fyrramálið væri sundlaugin lokuð frá 8-13. Konan sagði að hún færi þá í staðinn í lengri göngutúr en venjulega. Ég spurði hana hvort hún væri dugleg að ganga úti. Já, hún sagðist vera það. Og vinna í leiðinni. Ég hváði. 

Jú hún safnar flöskum í þessum göngutúrum. Stundum finnur hún eina, stundum tuttugu. En margt smátt gerir eitt stórt, og fyrir ágóðann af flöskusöfnuninni getur hún leyft sér ýmislegt sem hún gæti ekki annars. Svo sem keypt sér nýja skó, farið á kaffihús og stundum í nudd. 

Fólk spyr hana hvort hún skammist sín ekki fyrir þetta, en það gerir hún ekki, nema síður sé. Lítur þannig á að hún sé að hreinsa bæinn af rusli. Mest sér hún eftir því að hafa ekki byrjað á þessu löngu fyrr. 

En hvað skyldi það vera sem hvetur konu á hennar aldri til að safna flöskum og selja þær fyrir einhverjar krónur? Lágar greiðslur úr lífeyrissjóði!

Ég er sammála konunni um að hún þurfi ekki að skammast sín fyrir að tína flöskur. 

Mér finnst hins vegar skelfilegt að fólk þurfi að safna flöskum til þess að geta leyft sér örlítinn „lúxus“ í lífinu.