Ég skrapp í Lystigarðinn í gærmorgun og tók nokkrar myndir. Var sérlega ánægð með þessa.
miðvikudagur, 6. september 2017
laugardagur, 10. júní 2017
Að finna röddina sína
Ég á við þann ágalla að stríða að langa til að skrifa. Skrifa hvað? Sögur? Greinar? Viðtöl? Skáldsögu? Bara eitthvað. Kannski er þetta ekki einu sinni sértæk löngun til að skrifa, kannski bara þörf fyrir að tjá mig.
En sama hvaða nafni það kallast, þá er þetta búið að vera vandamál hjá mér í allmörg ár. Vandamál segi ég af því mér tekst hreinlega ekki að leysa úr þessu á fullnægjandi hátt. Hvað á ég við með því? Jú, mig langar til að skrifa en geri það ekki!!! Stórfurðulegt! Ég hef að vísu í gegnum tíðina skrifað örfáar smásögur og byrjað á enn fleirum, en eftir því sem tíminn líður þá er ég farin að örvænta um að þessi draumur minn verði nokkurn tímann að veruleika.
Málið er að mig langar að skrifa en eitthvað stoppar mig. Líklega hræðsla. Hræðsla við að mistakast? Það er frekar aulaleg ástæða, sérstaklega af því ég hef engan draum um að skrifa metsölubók eða þvíumlíkt. Í raun má segja að þetta snúist meira um löngun eða þörf heldur en draum. En það er þetta ósýnilega afl sem stoppar mig. Í hvert sinn sem ég sest niður og reyni að koma einhverju frá mér þá fer mér nánast að líða líkamlega illa. Eftir örstutta stund læt ég undan vanlíðaninni og opna facebook eða einhverja aðra vefsíðu og fer að slæpast.
Meðan ég var í vinnu þá var þetta ekki svo stórt vandamál. Vinnan tók alla mína orku og þar að auki var ég (og er) að kljást við vefjagigt og hafði þannig nægar afsakanir fyrir því að skrifa ekki. Núna, þegar ég hef ekki unnið utan heimilis í þrjú ár, þá eru afsakanir af skornum skammti og ég er farin að skammast mín fyrir framtaksleysið. Mér líður eins og alka sem ætlar að hætta að drekka, eða manneskju sem ætlar í megrun - Á morgun ætla ég að byrja! - og svo líður næsti dagur og ekki byrja ég.
Til að kóróna ástandið, þá hefur þetta áhrif á sjálfstraustið. Mér finnst ég vera að svíkja sjálfa mig og ekki standa við neitt sem ég „lofa“ og fer að sjá sjálfa mig sem óáreiðanlega manneskju sem nennir ekki að leggja sig fram. Svo hefur það líka áhrif á sjálfstraustið að vera ekki í vinnu, ég verð að viðurkenna það. Og mér leiðist hreinlega. Sérstaklega er seinni hluti vetrar og fram á vor erfiður tími hjá mér.
En ég hef ljósmyndunina þó það áhugamál gangi líka í gegnum hæðir og lægðir. Hef stundum velt því fyrir mér að ef ég hefði notað jafn mikinn tíma í skriftir eins og ljósmyndun síðustu 10 árin þá gæti ég verið búin að skrifa nokkrar bækur ...
Ein ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga á sínum tíma var sú að þá myndi ég þjálfa skriftar„vöðvann“ eða hann myndi amk ekki stirðna á meðan - en svo hætti ég að blogga. Veit ekki einu sinni af hverju. Kannski af því mér fannst ég vera farin að „væla“ svo mikið um vefjagigtina. En bloggið var alltaf fyrst og fremst hugsað fyrir sjálfa mig, þannig að þá hefði vefjagigtarvæl ekki átt að stoppa mig.
En kannski hætti ég að blogga af því ég var bara svo tóm. Innantóm. Og er það að einhverju leyti ennþá þó ég hafi svo ótal margt sem ég er þakklát fyrir. Fjölskyldan og barnabörnin þrjú sjá að minnsta kosti til þess að ég hef eitthvað að gera og til dæmis þá er Hrefna að koma núna eftir viku með börnin sín, þau Erik (sem verður 3ja ára í júlí) og Dagmar (sem verður 1. árs í nóvember), þannig að þá verður stuð.
Ég er að hugsa um að byrja aftur að blogga fyrir sjálfa mig. Mér líður alltaf betur við að koma orðum á blað (þó rafrænt sé) og þannig lagað séð þá er þetta eins konar sjálfsþerapía. Ef aðrir hafa áhuga á að lesa það sem ég skrifa þá er það bara bónus :)
þriðjudagur, 14. mars 2017
Lítil saga af kökubakstri
Hvað um það. Ég fór í Bónus í gær og renndi augunum yfir uppskriftina áður en ég lagði af stað í búðina. Sýndist í fljótu bragði að ég ætti allt sem í kökuna ætti að fara nema súrmjólk og suðusúkkulaði. Þannig að þau hráefni voru keypt. Enn var allt í lukkunnar velstandi. Ég var bara nokkuð ánægð með mig að ætla að gera þetta fyrir soninn og hélt að innkaupum fyrir baksturinn væri lokið. Ísak átti hins vegar ekki að mæta í vinnu fyrr en kl. 14 í dag, svo ég ákvað að bíða með að baka kökuna þar til núna í morgun.
Eftir að hafa borðað morgunmat ætlaði ég svo að vinda mér í verkið. Sótti uppskriftina og hafðist handa við að tína fram þau innihaldsefni sem í kökuna áttu að fara. Ekki var ég þó komin langt á veg þegar ég áttaði mig á því að ég átti ekki venjulegt hveiti (einungis glútenlaust og svo gróft spelthveiti og ég þorði hvorugt að nota) og varla nægjanlegt magn af flórsykri. Jæja hér var þá komin góð átylla fyrir því að ganga út í búð og fá sér ferskt loft í leiðinni. Ég klæddi mig í viðeigandi fatnað og skokkaði léttstíg út í 10-11. Þegar ég hafði fundið það sem mig vantaði, var komin á kassann og ætlaði að greiða fyrir vörurnar áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt veskinu heima. Hm, ekkert vandamál, ég bað stúlkuna bara að geyma þetta fyrir mig, ég ætti heima hérna rétt hjá og myndi skjótast eftir peningaveskinu. Skottaðist heim aftur, sótti debetkortið úr veskinu og dreif mig aftur út í búð þar sem ég borgaði fyrir vörurnar og gekk síðan aftur heim.
Þá var loks komið að því að hefjast handa við baksturinn. Fyrst eru 4 bollar af súrmjólk, 4 bollar af sykri, 2 bollar af bræddu smjöri og 6 bollar af hveiti. Næst koma 4 tsk. af natroni og 6 tsk. af kanil. Úbbs! Ég átti bara 1-2 tsk. af kanil. Hvað gera konur þá? Jú, fara aftur í búðina. Í þetta sinn nennti ég ekki að ganga, greip bara handtöskuna mína og keyrði á bílnum út í 10-11. Afgreiðslustúlkan bauð aftur góðan daginn og eftir að hafa boðið góðan daginn tilbaka, sagði ég henni að ég hefði nú bara ætlað að baka eina köku en þetta væri að ganga frekar illa hjá mér. Síðan fann ég kanilinn, kom að kassanum, setti hendina ofan í töskuna til að taka upp peningaveskið og greip í tómt! Ég ætlaði varla að trúa þessu og hvað þá aumingja afgreiðslustúlkan (ég var þegar farin að sjá hana fyrir mér skrifa status á facebook um þessa rugluðu konu!) svo ég fór út í bíl til að athuga hvort veskið lægi kannski í sætinu en ónei svo gott var það ekki. Fór aftur inn í búðina, kallaði til stúlkunnar að ég færi heim að sækja peningaveskið. Held hún hafi ekki alveg vitað hvað hún átti að halda - enda lái ég henni það ekki.
„Heim að sækja peninga“ ferð nr. 2 gekk tíðindalítið fyrir sig. Það rifjaðist samt upp fyrir mér þegar ég sá peningaveskið liggja á skóhillunni að ég hafði ætlað að taka bara veskið með mér og sleppa töskunni, en eitthvað hefur sú áætlun klikkað í framkvæmdinni. Þegar ég kom aftur út í búð (í fjórða skiptið á ca. tuttugu mínútum), spurði afgreiðslustúlkan hvort ég væri ekki örugglega komin með allt sem ég þyrfti? Nú voru hins vegar komnar glufur í góða skapið hjá mér og ég mumlaði bara eitthvað óskiljanlegt um leið og ég gretti mig. Ég gat eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda að þurfa eina ferðina enn í 10-11, svo ég strengdi þess heit innra með mér að ef mig myndi vanta eitthvað þegar kæmi að því að gera kremið, þá færi ég í Hrísalund!
Hér að neðan er mynd af afmælis"barninu" á leið í vinnuna. Það var svo mikil birta úti að hann náði ekki að hafa bæði augun opin ;)
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)