Já batnandi fólki er best að lifa. Mér fannst kominn tími til að skrifa nýjan pistil, þar sem sá síðasti var frekar á neikvæðu nótunum. Auðvitað gafst ég ekkert upp í leikfiminni, en vá hvað fyrstu vikurnar voru erfiðar. Sjúkraþjálfarinn (önnur þeirra sem eru með leikfimina) sagði að það tæki taugakerfið 4-6 vikur að jafna sig á nýju áreiti, og það stóð heima. Ég ákvað að mæta samviskusamlega í hvern einasta tíma (x3 í viku) og eftir ca. 4-5 vikur fór ég að finna heilmikinn mun á mér til hins betra. Mikið sem er gaman þegar eitthvað gengur vel hjá manni :) Mér finnst þessi leikfimi líka henta mér ágætlega og það eru fínar konur þarna allt í kringum mig, bæði þjálfararnir og konurnar í leikfiminni. Sumar þekkti ég fyrir en það voru líka mörg ný andlit.
Í byrjun október fórum við Valur í frí til Spánar, með Önnu systur og Kjell-Einari manninum hennar. Við leigðum okkur hús í litlu þorpi sem heitir Frigiliana, en það er í ca. 45 mín. akstursfjarlægð frá Malaga. Hitastigið var á bilinu 21-25 gráður og það hentaði mér afskaplega vel. Ég var svo mjúk og góð í skrokknum og átti ekki í neinum erfiðleikum með að ganga upp og niður brattar tröppur og stíga, sem mikið var af í þorpinu. Ég efast ekki um að það var leikfiminni að þakka :)
Ég þarf eiginlega að gera sérstaka bloggfærslu um Spánarferðina, en læt hér staðar numið í bili. Leyfi einni mynd af sjálfri mér að fljóta með, bara svona til að sýna hvað Spánn fór vel með mig. Góða helgi gott fólk :)