Undanfarið hef ég verið alveg uppgefin á sjálfri mér og mínu ástandi. Það er veruleg áskorun að fara í gegnum lífið með sjúkdóm (strangt til tekið má ekki kalla vefjagigt sjúkdóm, þetta er heilkenni) sem vofir endalaust yfir manni og hefur áhrif á allt sem maður gerir. Mér gengur misvel að halda haus og stundum er ég bara ekki að nenna þessu lengur.
En þrátt fyrir frekar mikið þunglyndi síðustu vikur þá dröslast ég nú alltaf á lappir á morgnana og held mínu striki. Reyni að láta á engu bera í samskiptum mínum við annað fólk, þó auðvitað gangi það misvel. Annars er ég ekkert feimin við að viðurkenna hvernig mér líður. Mér finnst mun auðveldara að vera hreinskilin heldur en að reyna að „halda andlitinu“ fyrir alla muni.
Vonandi eru nú samt örlítið bjartari tímar framundan. Ég er skárri af verkjunum sem voru alveg að gera út af við mig á tímabili, og eins er ég mun betri í bakinu (fékk heiftarlega í bakið um daginn). Hef líka tekið aðeins til í mataræðinu aftur og er ekki frá því að það muni töluvert um það.
Í gær kom allt í einu yfir mig mikil löngun til að komast út í náttúruna. Mér fannst bara að ég yrði að drífa mig út. Og þar sem ég er að reyna að vera duglegri að hlusta á það þegar ég fæ svona „skilaboð“ þá dreif ég mig að sjálfsögðu út.
Upprunalega var ætlunin að ganga upp í Fálkafell (skátakofi hér fyrir ofan bæinn) en ég fann fljótt að skrokkurinn á mér var nú ekki að samþykkja alveg svo mikið útstálesi. Þannig að ég rölti bara áleiðis uppeftir og stoppaði oft og mörgum sinnum til að taka myndir af blómum og gróðri sem ég sá. Ég var með svokallaða makró linsu á myndavélinni, en hún stækkar upp myndefnið. Mér finnst mjög gaman að nota þannig linsu. Og til gamans þá koma hér nokkrar myndir sem ég tók í gær.