Nú er komið rúmt ár síðan ég hætti að vinna utan heimlis og ég held það sé óhætt að segja að vefjagigtin er ekki að fara neitt ... Hafi ég haft drauma um að geta orðið full orku og komið mér í toppform, þá er ég búin að leggja þá í salt í bili.
Satt best að segja hef ég verið óvenju slæm af vefjagigtinni þessa síðustu mánuði, eða allt frá áramótum. Bæði hvað snertir þreytu, verki og almenna veikinda-tilfinningu. Hugsanlega er þetta til komið vegna þess að ég hef verið að svindla alltof mikið á mataræðinu. Hugsanlega vegna streitu. Því breyttar kringumstæður hafa vissulega valdið mér streitu. Það kemur upp ákveðinn kvíði vegna framtíðarinnar. Mun ég geta unnið fyrir launum aftur? Hvað á ég að taka mér fyrir hendur?
Fólk spyr „endalaust“ hvað ég sé að gera núna. Skiljanlega. Fáir vita að ég myndi ekki treysta mér í fulla vinnu og eðlilega gerir fólk ráð fyrir því að einhver sem hefur hætt í einni vinnu finni sér nýtt starf.
Ég hef samt reynt að gæta þess að falla ekki í þá gryfju að hugsa alltof illa um sjálfa mig. Er búin að komast að því að það skilar engu. Nema að mér líður þá ennþá verr yfir þessu öllu.
Og ég hef margt að vera þakklát fyrir. Ég líð svo sannarlega engan skort og ég hef líkama sem þrátt fyrir allt gerir mér kleift að standa í fæturnar og gera flest sem mig langar til að gera (á mínum forsendum).
OK ég get ekki gengið á fjöll, ekki hlaupið og ekki stundað hefðbundna líkamsrækt.
En ég get:
Synt bringusund, baksund, skriðsund og bakskrið
Farið í styttri gönguferðir
Tekið ljósmyndir
Hjólað á reiðhjóli í 15-20 mín. í einu
Skrifað
Lesið
Hlustað
Prjónað (ef ég nenni, hehe)
Saumað (ef mig langar)
Átt samtöl við fólk
Farið í ferðalög í mínum takti
Klappað kettinum
Knúsað fólkið mitt
Og það að hafa ekki verið í launaðri vinnu síðasta árið hefur gert mér kleift að fylgja mömmu eftir í hennar veikindum - og fara nokkrar ferðir til Danmerkur að heimsækja barnabarnið.
Vissulega koma dagar og jafnvel vikur þar sem geta mín takmarkast verulega og ég eyði stærstum hluta dagsins í sófanum. En mergurinn málsins er sá að þrátt fyrir allt þá er lífið svo sannarlega þess virði að lifa því. Maður þarf bara að passa að festast ekki ofan í stóra sjálfsvorkunnarpyttinum.
Ég var nú eiginlega á kafi ofan í honum þegar ég byrjaði að skrifa þessa færslu ... en eins og svo oft áður þá hjálpa skrifin mér að setja hlutina í samhengi :-)