Á þessum tíu árum sem ég hef bloggað, hef ég aldrei nokkurn tímann skrifað jafn sjaldan og í ár, eða einungis 37 sinnum (þetta er færsla nr. 38). Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hver sé ástæðan fyrir þessu, en get ekki sagt að ég hafi komist að gáfulegri niðurstöðu.
En í fyrsta lagi þá er ég að taka þátt í ljósmyndaáskorun og tek eina ljósmynd á hverjum degi í heilt ár sem ég birti á
Blipfoto vefnum og skrifa yfirleitt eitthvað með myndinni. Þannig að hugsanlega fæ ég útrás fyrir tjáningarþörf mína á þann hátt og þarf því ekki að tjá mig meira ... Eða að ég get hreinlega ekki gert tvennt í einu, að halda úti ljósmyndadagbók og jafnframt að blogga. Finnst það mun líklegri skýring, hehe ;-)
Önnur möguleg ástæða er sú að ég hangi eitthvað svo í lausu lofti þessa dagana / mánuðina / árið ... Og einhverra vegna fæ ég mig ekki til að blogga á meðan ástandið er svona. Sem er verulega skrítið því það kemur oft fyrir að mig langar til þess og ég kannski byrja á færslu en klára hana ekki. Sbr. þessi færsla hér sem ég byrjaði á í síðustu viku held ég.
En já eftir að hafa hætt með verslunina og síðan fylgt mömmu eftir í hennar veikindatímabili eins og ég hef getað, þá er ég núna mest í því að slappa af og reyna að safna mér aðeins saman. Ég finn að ég er líkamlega aðeins styrkari og ég er að vinna í því að koma kollinum á mér í betra horf en þreytan er enn að plaga mig. Þá hef ég að vísu reynt að horfa á góðu hliðarnar, nefnilega þær að ég þarf þó ekki að mæta í vinnu þegar ég er svona þreytt heldur get bara legið í sófanum og hvílt mig eða lesið þegar ég er sem þreyttust. Svo það er nú jákvætt.
Annars fórum við Valur í alveg dásamlegt frí til Spánar um daginn og ég þarf nú eiginlega að taka saman nokkrar myndir og setja hér inn.
Og svona rétt í lokin, þá er þessi mynd tekin í Þorvaldsdal núna í haust. Við fórum í þriggja daga síðsumarfrí þar sem við gistum í hjólhýsinu við Húsabakka í Svarfaðardal, og skruppum meðal annars í berjamó.