Í nokkur ár hef ég verið að velta því fyrir mér að hætta að lita á mér hárið. Ég vissi sem var að ég var sífellt að grána meira en satt best að segja hef ég ekki séð minn náttúrulega háralit í ... tja ... nærri 30 ár? Og þar sem ég verð fimmtug núna í haust þá er þetta góður helmingur ævi minnar. Minn eiginlegi háralitur var „músabrúnn“ og ég byrjaði að lita á mér hárið til að fá meira spennandi háralit. Fyrst var þetta bara litaskol sem þvoðist úr í nokkrum þvottum en eftir því sem gráu hárunum fjölgaði breyttist skolið í fastan lit. Svo fór ég að bæta við strípum og prófa hina ýmsu háraliti til gamans. Ég hef verið ljóshærð, rauðhærð, brúnhærð og mjög dökkhærð en aldrei alveg svarthærð reyndar.
Fyrir einu eða tveimur árum fór ég síðan alvarlega að spá í hvort ég væri orðin nógu gráhærð (ekki bara skellótt á litinn) til að leyfa mínum eiginlega háralit að koma í ljós. Að hluta til af því ég sá hvað það fór sumum konum vel að vera gráhærðar og að hluta til af því ég þurfti orðið í litun á 4ra vikna fresti ef vel átti að vera. Þó mér finnist reyndar voða gaman að fara í klippingu og litun til hennar Ernu minnar (við spjöllum svo mikið saman :) þá fannst mér fara býsna mikill tími í þetta. Eins tók ég eftir því að suma daga þegar ég hafði farið á hárgreiðslustofu í klipp+lit, þá var ég mjög þreytt í kjölfarið. Sennilega vegna þess að það er álag að sitja í ca. 2,5 tíma en ég gat jú ekki heldur útilokað að það væri liturinn sjálfur sem ég væri að bregðast svona illa við.
Þannig að ... eftir að hafa hugsað málið í töluverðan tíma þá ákvað ég að láta slag standa. Það var nú reyndar pínu fyndið, að daginn áður en ég átti pantaðan tíma hjá Ernu í klippingu og litun, þá hringdi hún í mig til að spyrja hvort ég gæti komið þann sama dag til sín, því daginn eftir yrði vatnslaust og þá væri ekki hægt að lita á mér hárið (eða skola litinn úr öllu heldur). Ég ákvað að líta á þetta sem tákn um að nú væri rétti tíminn til að hætta að lita á mér hárið, og sagði henni það sem ég var að hugsa, og við ákváðum að sleppa lit í þetta sinn. Ég var nú með ótal varnagla og sagði að ef mér litist ekkert á þetta þá kæmi ég til hennar í „neyðarlitun“. En já hún klippti hárið býsna stutt en samt var nú töluverður litur í því ennþá. Þannig að fyrsta útgáfa af klippingu leit svona út:
Þarna sést pínu grátt í vöngum en ennþá er hellings litur í hárinu (en Erna sleppti því að lita í rótina). Svo tók nú ekki langan tíma þar til rótin var orðin alltof grá miðað við restina af hárinu, og ég hringdi neyðarhringingu í Ernu og bað um klippingu. Þá tók hún nánast allt hár sem var litað en varð þó að skilja eftir smá brúnt, til að gera mig ekki alveg sköllótta ;-) Þá leit ég svona út:
Hehe hálfgerð fangamynd af mér ;-) Síðan hefur hárið vaxið aðeins eins og sjá má á þessari mynd hér að neðan, sem sýnir mig og Palla bróður (já hann og Sanne konan hans stoppuðu hér á landi í 10 daga og hjálpuðu meðal annars við flutningana hjá mömmu).
Ég er bara mjög ánægð með að leyfa gráu hárunum að njóta sín, amk núna í sumar þegar ég er sólbrún ... svo verður bara að koma í ljós hvort ég verð sama sinnis þegar fer að vetra og ég er orðin fölari í framan ...