Lífið tekur stundum óvæntum breytingum, hvort sem við viljum það eða ekki. Ef satt skal segja þá kann ég yfir höfuð ekkert sérlega vel við óvæntar breytingar. Ég er hálfgerður öryggis-fíkill, vil bara hafa hlutina óbreytta og lifa lífinu inni í minni þægilegu öruggu kúlu.
Á sama tíma veit ég að það er mun meira þroskandi að fara stundum út fyrir rammann og takast á við nýja hluti, en hin síðari ár er ég að verða algjör hræðslupúki hvað það varðar. Hvað um það, síðasta hálfa árið eða svo þá hefur lífið varpað mér inn í ýmsar nýjar aðstæður, sem mér gengur misvel að vinna úr.
Núna síðast eru það veikindi mömmu. Alveg frá því hún datt og brotnaði hef ég fundið fyrir því hversu mikið mig langar að hafa stjórn á atburðarásinni.
- Ég vildi vita fyrirfram hversu lengi hún þyrfti að liggja á sjúkrahúsinu.
- Ég vildi að hún fyndi ekki fyrir miklum verkjum eftir aðgerðina.
- Ég vildi að hún sjálf væri bjartsýn á góðan bata.
- Ég vildi að hún myndi styrkjast jafnt og þétt.
- Ég vildi að hún gæti séð um sig sjálf þegar Anna fer til Noregs á mánudaginn.
- Ég óskaði þess að henni litist vel á dagvistunina sem henni stendur til boða.
Það er skemmst frá að segja að ég hafði ekki stjórn á neinum af þessum atriðum. Auðvitað var engin leið að segja fyrir um það hve lengi mamma þurfti að vera á sjúkrahúsinu. Hún hefur verið afskaplega slæm af verkjum þessar vikur sem liðnar eru frá aðgerð. Hana skortir meiri bjartsýni á bata. Vissulega hefur hún styrkst en þetta eru svona “tvö skref áfram og eitt afturábak“. Hvorki Anna né Dísa treysta henni til að sjá um sig sjálf þegar Anna fer. Þær fóru allar að skoða dagvistun í gær en mömmu leist ekkert á sig þar.
Þannig að eins og staðan er í dag, lítur allt úr fyrir að mamma komi norður og verði hér í 2-3 vikur, á meðan hún styrkist meira. Gamla herbergið hans Ísaks er laust, þarf bara að þrífa það og henda alls konar dóti þaðan út. Svo verður bara að koma í ljós hvernig framhaldið verður.
Ég held ég sé búin að læra mína lexíu varðandi það, að maður getur ekki stjórnað hlutum, nema þá að vissu marki. Þannig að ég verð bara að slaka á og „go with the flow“. Treysta því að allt sé eins og það á að vera og hætta öllum þessum endalausu fyrirfram áhyggjum.