mánudagur, 26. febrúar 2007
Kemur allt með kalda vatninu
Smátt og smátt erum við að líkjast sjálfum okkur aftur. Valur fór í vinnu í morgun og ég fer að vinna klukkan tvö en við ákváðum að hafa Ísak heima í dag. Hann er reyndar orðinn svo hress að hann mun fara í skólann á morgun, ég vildi bara hafa vaðið fyrir neðan mig, hann er jú búinn að vera svo rosalega veikur. Það vantar nú ennþá mikið uppá að ég sé alveg laus við flensuna en í morgun var fyrsti dagurinn sem ég vaknaði og fannst ég bara nokkuð hress. Því miður verður ekki það sama sagt um Sunnu, meðeiganda minn í Pottum og prikum, sem nú er komin með flensuna og búin að liggja í rúminu síðan á föstudag. Já, þetta er nú meira stuðið.
sunnudagur, 25. febrúar 2007
Sá gleðilegi atburður
gerðist áðan að Ísak var orðinn nógu hress til að fara og heimsækja Jón Stefán og Patrek, vini sína sem búa hér í götunni. Í dag er slétt vika síðan hann kom veikur heim frá Hrafnagili. Valur fór aðeins út í gær en ég hef ekki farið neitt út ennþá. Er alveg ótrúlega slöpp og með ýmis "skrýtin" sjúkdómseinkenni (í viðbót við öll þessi venjulegu s.s. hor í nefi, hósta og höfuðverk). Í allan gærdag var ég t.d. alveg að drepast úr verkjum í augunum og gríðarlegur fótapirringur hefur einnig ætlað að gera út af við mig, sérstaklega á nóttunni. Ég ætlaði að vera voða sniðug í gærkvöldi og tók verkjatöflu með góðum fyrirvara áður en ég fór í háttinn. Náði þá að sofna en vaknaði um þrjúleytið alveg frá í fótunum. Reyndi að þreyja þorrann en gafst upp klukkan fjögur og tók aðra verkjatöflu. Sofnaði eins og steinn og svaf til hálf tólf. Það fannst mér ansi gott því ég svaf megnið af gærdeginum líka. Já, þessar víruspestar eru ekkert lamb að leika sér að!
föstudagur, 23. febrúar 2007
Aumt er ástandið
Þetta er í fyrsta skipti á okkar tuttugu sambúðarárum sem við Valur veikjumst á nákvæmlega sama tíma og erum bæði jafn fárveik. Mæli ekki með því...
miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Hóstað í heilsubæli
Við Valur erum bæði búin að krækja okkur í þessa pesti sem Ísak er með og erum frekar framlág. Ég, sem fæ aldrei hita, ákvað að mæla mig í dag og var með 39,5. Skil samt ekki hvernig það er hægt að vera með svo háan hita en vera samt kalt á tánum...
Annars var Ísak heppinn í dag því vinir hans í öskudagsliðinu komu færandi hendi með fullan poka af öskudagsnammi handa honum. Það fannst mér virkilega fallega gert af þeim :-)
Annars var Ísak heppinn í dag því vinir hans í öskudagsliðinu komu færandi hendi með fullan poka af öskudagsnammi handa honum. Það fannst mér virkilega fallega gert af þeim :-)
mánudagur, 19. febrúar 2007
Ísak áfram veikur og Andri tognaður á ökkla
Já, fjörið heldur áfram. Ísak hefur verið með yfir 40 stiga hita í rúman sólarhring núna og hefur mestmegnis sofið. Eins og staðan er í dag lítur ekki út fyrir að hann komist í bæinn að syngja á öskudaginn (það liggur við að mér finnist það vera mér að kenna af því ég var að fjargviðrast svona mikið út af búningamálunum).
Svo fór Andri í leikfimi í hádeginu í dag og var svo óheppinn að togna á ökkla og getur varla stigið í fótinn. Þannig að hann lá heima eftir hádegið og safnaði fjarvistarstigum (ég er pínu fúl út í þetta mætingakerfi í MA, krakkarnir fá fjarvistir fyrir veikindi, ekki tekið við læknisvottorði nema þau séu veik í þrjá daga eða meira).
Vangaveltur varðandi sumarfríið farnar að láta á sér kræla. Mig dauðlangar eitthvert til útlanda með fjölskyldunni. Í sól og sumaryl. Hefði helst viljað fara um páskana en 1) Valur á að vera á vakt um páskana 2) Andri á að keppa í handbolta 31. mars 3) Flestar ferðir lenda þannig á dögunum að Andri myndi missa tvo til þrjá daga úr skóla og þar með fá fjarvistarstig 4) þar fyrir utan er alltof seint í rassinn gripið að panta núna. Þannig að valið stendur á milli þess að fara seinni partinn í júní eða í byrjun september. Ef við færum í júní gæti Andri ekki byrjað að vinna fyrr en í júlí og spurning hvort einhver vill ráða hann í vinnu svona seint. Í september er Ísak byrjaður í skólanum en þar sem hann er enn í grunnskóla þá er hægt að fá leyfi fyrir hann. Mér finnst bara svo langt að bíða fram í september...
Svo fór Andri í leikfimi í hádeginu í dag og var svo óheppinn að togna á ökkla og getur varla stigið í fótinn. Þannig að hann lá heima eftir hádegið og safnaði fjarvistarstigum (ég er pínu fúl út í þetta mætingakerfi í MA, krakkarnir fá fjarvistir fyrir veikindi, ekki tekið við læknisvottorði nema þau séu veik í þrjá daga eða meira).
Vangaveltur varðandi sumarfríið farnar að láta á sér kræla. Mig dauðlangar eitthvert til útlanda með fjölskyldunni. Í sól og sumaryl. Hefði helst viljað fara um páskana en 1) Valur á að vera á vakt um páskana 2) Andri á að keppa í handbolta 31. mars 3) Flestar ferðir lenda þannig á dögunum að Andri myndi missa tvo til þrjá daga úr skóla og þar með fá fjarvistarstig 4) þar fyrir utan er alltof seint í rassinn gripið að panta núna. Þannig að valið stendur á milli þess að fara seinni partinn í júní eða í byrjun september. Ef við færum í júní gæti Andri ekki byrjað að vinna fyrr en í júlí og spurning hvort einhver vill ráða hann í vinnu svona seint. Í september er Ísak byrjaður í skólanum en þar sem hann er enn í grunnskóla þá er hægt að fá leyfi fyrir hann. Mér finnst bara svo langt að bíða fram í september...
sunnudagur, 18. febrúar 2007
Ísak kom fárveikur heim
úr fótboltaferðinni á Hrafnagil og er sennilega kominn með flensu. Það er hætt við því að hann hafi ekki mikla lyst á bollunum sem pabbi hans er búinn að baka. Ég hins vegar hef góða lyst og ætla að fara að búa til glassúr og þeyta rjóma.
laugardagur, 17. febrúar 2007
Tómt í kotinu
Afmælisbarnið er farið í partý hjá öðrum afmælisbörnum, Ísak er á Hrafnagili með fótboltanum og við "gömlu" hjónin ein heima (reyndar eru kettirnir heima líka). Við skelltum í tvær afmæliskökur í dag (fullkomið jafnrétti hér á bæ, ég gerði aðra og Valur hina) og svo eldaði Valur (þar fauk jafnréttið fyrir borð) dýrindis nautasteikur í kvöld. Að öðru leyti fór afmælið tíðindalítið fram, það er á svona dögum sem maður saknar fjölskyldunnar (í Danmörku, Noregi, Reykjavík og Keflavík) og vildi óska að hægt væri að hóa í liðið í kaffi.
Ekki var samt tíðindalítið í Pottum og prikum en þar hafði verið brotist inn um bakdyr í nótt. Sem betur fer fór viðkomandi ekki í búðina sjálfa en skildi allt eftir á rúi og stúi á litla lagernum okkar. Svo fór hann uppá efri hæðina þar sem pabbi hennar Sunnu á heima, og fór að sofa í rúmi húsráðenda sem ekki voru heima og þar kom Sunna að honum í dag. Það var mildi að þetta hefur verið rólyndismaður, við fyrstu sýn lítur ekki út fyrir að neitt hafi verið eyðilagt og engu stolið. Já, þetta er Akureyri í dag...
Ekki var samt tíðindalítið í Pottum og prikum en þar hafði verið brotist inn um bakdyr í nótt. Sem betur fer fór viðkomandi ekki í búðina sjálfa en skildi allt eftir á rúi og stúi á litla lagernum okkar. Svo fór hann uppá efri hæðina þar sem pabbi hennar Sunnu á heima, og fór að sofa í rúmi húsráðenda sem ekki voru heima og þar kom Sunna að honum í dag. Það var mildi að þetta hefur verið rólyndismaður, við fyrstu sýn lítur ekki út fyrir að neitt hafi verið eyðilagt og engu stolið. Já, þetta er Akureyri í dag...
Tíminn líður hratt
á gervihnattaöld...
Ef mig misminnir ekki þá er þetta lína úr Gleðibankanum (sem einu sinni keppti í söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna). Ætli yrði ekki frekar talað um tölvuöld í dag? Alla vega, tilefni þess að mér datt þessi laglína í hug er 17. ára afmæli Andra. Mér finnst svo ógurlega stutt síðan hann fæddist og svo er hann að fá bílpróf á næstunni. Já, það er víst um að gera að njóta þessara blessaðra barna meðan þau eru hérna hjá okkur því allt í einu, eins og hendi sé veifað, eru þau orðin fullorðin. En það sem ég vildi sagt hafa:
Innilega til hamingju með afmælið Andri minn :-)
Ef mig misminnir ekki þá er þetta lína úr Gleðibankanum (sem einu sinni keppti í söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna). Ætli yrði ekki frekar talað um tölvuöld í dag? Alla vega, tilefni þess að mér datt þessi laglína í hug er 17. ára afmæli Andra. Mér finnst svo ógurlega stutt síðan hann fæddist og svo er hann að fá bílpróf á næstunni. Já, það er víst um að gera að njóta þessara blessaðra barna meðan þau eru hérna hjá okkur því allt í einu, eins og hendi sé veifað, eru þau orðin fullorðin. En það sem ég vildi sagt hafa:
Innilega til hamingju með afmælið Andri minn :-)
miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Það er alltaf gaman að fá pakka
Áðan kom ég upp á efri hæðina eftir sjónvarpsgláp kvöldsins og fann þá pakka með nafninu mínu á. Þar sem ég á ekki afmæli fyrr en í nóvember kom sendingin gleðilega á óvart. Ekki minnkaði ánægjan þegar ég sá innihaldið, tvær bækur sem systir mín hefur þýtt úr norsku yfir á íslensku og eru gefnar út af Vöku-Helgafelli (önnur heitir Málað á stórt og smátt, hin heitir Minningaalbúm - hefðbundið og stafrænt skrapp). En það var ekki allt, nei hún hafði stungið tveimur norskum "konublöðum" með í pakkann líka, KK og HENNES. Þannig að nú hef ég aldeilis úr nógu að moða.
Þakka þér kærlega fyrir sendinguna Anna mín :-)
Þakka þér kærlega fyrir sendinguna Anna mín :-)
þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Öskudagurinn nálgast
og ég er í nettu kvíðakasti.
Öskudegi fylgir nefnilega það ógurlega vandamál að redda öskudagsbúningi á yngri soninn. Mig skortir hugmyndaflug þegar að öskudagsbúningum kemur og það kom sér afskaplega vel að geta keypt tilbúinn búning fyrir þremur (fjórum?) árum, sem Ísak hefur verið í síðan. Það skal tekið fram að hann vildi sjálfur nýta sama búninginn svona lengi (þjáist sennilega af sama hugmyndaskorti og mamman á þessu sviði) en nú langar hann að skipta.
Honum datt í hug að hann gæti verið Drakúla greifi og hafði séð slíkan búning auglýstan. Þannig að við fórum í einu leikfangaverslun bæjarins í gær og þar kom fljótt í ljós að sá búningur var aðeins til í stærð 7-9 ára. Þar sem styttist óðfluga í 12 ára afmælið vildi ég meina að stærðin væri ekki rétt. Sonurinn vildi hins vegar meina að hann væri smávaxinn eftir aldri. Ekki vorum við sammála um það, ég taldi að hann væri í meðallagi stór.
Í framhaldinu stakk ég uppá því að hann gæti leikið gamlan karl og hugsaði með sjálfri mér að við hlytum að geta fundið einhver föt heima sem væri hægt að klæða hann í. Fundum gerviskegg og örkuðum út úr búðinni.
Nú hefði málið átt að vera nokkurn veginn leyst, en allt í einu fór ég að efast um að við ættum nægilegan efnivið í föt á gamlan karl - hér á bæ eru öll föt gefin í Rauða krossinn jafnóðum og hætt er að nota þau. Þá mundi ég að það fást einnig öskudagsbúningar í Hagkaup og stakk uppá því að við færum líka þangað. Ekki leist nú syninum á þá hugmynd, var búin að fá nóg af bæjarferðinni eftir tíu mínútna viðdvöl í dótabúðinni. Engu að síður dró ég hann nauðugan með mér inn í Hagkaup þar sem í ljós kom að ekki voru til neinir búningar sem honum þóknuðust.
Þessari öskudags-innkaupaferð lauk með því að drengurinn var orðinn fúll (hann hafði jú ekki viljað fara í aðra búð og ferðin þangað var tilgangslaus) og mamman var orðin fúl (hún var jú að reyna að bjarga þessu búningamáli fyrir hann, ekki að drösla honum milli verslana að gamni sínu).
Já, svona fór um sjóferð þá, og ég get haldið áfram að kvíða fyrir öskudeginum enn um sinn, eða a.m.k. þar til búið er að redda öskudagsbúningi...
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því ennþá - þá á ég það til að stressa mig ótæpilega upp yfir hlutum sem yfirleitt leysast af sjálfu sér - eða með öðrum orðum - ég er snillingur í því að flækja líf mitt að óþörfu!
Öskudegi fylgir nefnilega það ógurlega vandamál að redda öskudagsbúningi á yngri soninn. Mig skortir hugmyndaflug þegar að öskudagsbúningum kemur og það kom sér afskaplega vel að geta keypt tilbúinn búning fyrir þremur (fjórum?) árum, sem Ísak hefur verið í síðan. Það skal tekið fram að hann vildi sjálfur nýta sama búninginn svona lengi (þjáist sennilega af sama hugmyndaskorti og mamman á þessu sviði) en nú langar hann að skipta.
Honum datt í hug að hann gæti verið Drakúla greifi og hafði séð slíkan búning auglýstan. Þannig að við fórum í einu leikfangaverslun bæjarins í gær og þar kom fljótt í ljós að sá búningur var aðeins til í stærð 7-9 ára. Þar sem styttist óðfluga í 12 ára afmælið vildi ég meina að stærðin væri ekki rétt. Sonurinn vildi hins vegar meina að hann væri smávaxinn eftir aldri. Ekki vorum við sammála um það, ég taldi að hann væri í meðallagi stór.
Í framhaldinu stakk ég uppá því að hann gæti leikið gamlan karl og hugsaði með sjálfri mér að við hlytum að geta fundið einhver föt heima sem væri hægt að klæða hann í. Fundum gerviskegg og örkuðum út úr búðinni.
Nú hefði málið átt að vera nokkurn veginn leyst, en allt í einu fór ég að efast um að við ættum nægilegan efnivið í föt á gamlan karl - hér á bæ eru öll föt gefin í Rauða krossinn jafnóðum og hætt er að nota þau. Þá mundi ég að það fást einnig öskudagsbúningar í Hagkaup og stakk uppá því að við færum líka þangað. Ekki leist nú syninum á þá hugmynd, var búin að fá nóg af bæjarferðinni eftir tíu mínútna viðdvöl í dótabúðinni. Engu að síður dró ég hann nauðugan með mér inn í Hagkaup þar sem í ljós kom að ekki voru til neinir búningar sem honum þóknuðust.
Þessari öskudags-innkaupaferð lauk með því að drengurinn var orðinn fúll (hann hafði jú ekki viljað fara í aðra búð og ferðin þangað var tilgangslaus) og mamman var orðin fúl (hún var jú að reyna að bjarga þessu búningamáli fyrir hann, ekki að drösla honum milli verslana að gamni sínu).
Já, svona fór um sjóferð þá, og ég get haldið áfram að kvíða fyrir öskudeginum enn um sinn, eða a.m.k. þar til búið er að redda öskudagsbúningi...
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því ennþá - þá á ég það til að stressa mig ótæpilega upp yfir hlutum sem yfirleitt leysast af sjálfu sér - eða með öðrum orðum - ég er snillingur í því að flækja líf mitt að óþörfu!
laugardagur, 10. febrúar 2007
Leikurinn ekki búinn fyrr en dómarinn hefur flautað
Eða með öðrum orðum, ég fagnaði aðeins of snemma. Er ekki laus við pestina sem nú virðist vera lögst á hálsinn, kinnholur og höfuð.
Valur er líka kvefaður en lét það ekki aftra sér frá því að skreppa á skíði meðan ég var í vinnunni.
Synirnir voru báðir að keppa í dag, Andri í handbolta og Ísak í fótbolta. Þar skiptust á skin og skúrir eins og gengur í íþróttunum.
Læknaneminn var á fartinni í Köben og keypti sér ýmislegt smálegt til heimilisins.
Kettirnir hafa hins vegar haldið sig mest megnis inni við í dag enda áframhaldandi frost úti.
Við hjónin ætluðum í leikhúsið í kvöld að sjá Svartan kött en afréðum að afpanta miðana og fara frekar þegar heilsan væri betri.
Held ég láti þessari lýsingu á högum okkar lokið í bili
Valur er líka kvefaður en lét það ekki aftra sér frá því að skreppa á skíði meðan ég var í vinnunni.
Synirnir voru báðir að keppa í dag, Andri í handbolta og Ísak í fótbolta. Þar skiptust á skin og skúrir eins og gengur í íþróttunum.
Læknaneminn var á fartinni í Köben og keypti sér ýmislegt smálegt til heimilisins.
Kettirnir hafa hins vegar haldið sig mest megnis inni við í dag enda áframhaldandi frost úti.
Við hjónin ætluðum í leikhúsið í kvöld að sjá Svartan kött en afréðum að afpanta miðana og fara frekar þegar heilsan væri betri.
Held ég láti þessari lýsingu á högum okkar lokið í bili
föstudagur, 9. febrúar 2007
"Frisk som en fisk"
er orðtak sem ég lærði í Noregi. Ég get ómögulega munað eftir sambærilegu íslensku ortaki - en það hlýtur að fyrirfinnast. Lýsi hér með eftir því. Alla vega, ég er laus við pestina. Tók þann pól í hæðina að hvila mig bara vel, svaf til hálf tíu í gærmorgun og hálf tólf í morgun og er barasta úthvíld og spræk :-) Vildi bara deila þessum góðu fréttum með ykkur, svo ég sé ekki alltaf að kvarta á blogginu heldur segi eitthvað jákvætt líka...
miðvikudagur, 7. febrúar 2007
Hvar eru íslensku stafirnir?
Ég neyddist til að skipta yfir í beta blogger og nú eru íslensku stafirnir í tenglunum allir í rugli.
Það var ekki að ástæðulausu
að ég var svona andlaus í gær og langaði mest upp í rúm (sem ég gerði reyndar ekki heldur fór að lesa nýlega bók eftir Paul Auster). Ég var undirlögð af verkjum í skrokknum þegar ég vaknaði í morgun og hugsaði með mér að ég væri verri en vanalega en dreif mig samt í sund. Kom heim og þar sem ég átti ekki að fara að vinna fyrr en eftir hádegi heimsótti ég gamla vinkonu mína í morgun. Fór svo í Bónus og var komin heim rúmlega eitt. Fann þá allt í einu að ég var alveg eins og drusla, máttlaus og aumingjaleg eitthvað. Áttaði mig þá loks á því að ég var komin með einhverja pest í mig. Gleypti eina ibufen og tók mig saman í andlitinu áður en ég dreif mig í vinnuna. Þar var Sunna og var líka orðin lasin. Ástand á eigendum Potta og prika... Kosturinn er sá að ég er ekki með hósta, ekki hálsbólgu, ekki hita. Bara rosalega slöpp og með heljarinnar beinverki. En þetta hlýtur að líða fljótt hjá úr því þetta er ekki "allur pakkinn".
þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Arg!
Kom heim úr vinnunni um fjögurleytið og hef eytt tímanum síðan í eftirfarandi athafnir:
1. Sitja við eldhúsborðið og lesa blöðin frá því í gær og í dag (tveir Moggar, tvö Fréttablöð og eitt Blaðið).
2. Sitja fyrir framan tölvuna og lesa blogg (of mörg til að telja þau upp hér).
Fögur fyrirheit um gönguferð í snjónum og frostinu (þó ekki nærri jafn kalt og hjá Kötu) urðu undan að láta. Í staðinn dúkkuðu upp hugsanir um rúmið mitt og koddann - en ég hef ekki látið undan þeirri freistingu ennþá. Varð sem sagt frekar syfjuð af þessu hreyfingarleysi.
Framundan er að sækja Ísak á fótboltaæfingu, sækja pítsu, og tja.... setja í eina þvottavél eða svo, kannski horfa á unglingaþáttinn Veronicu Mars og fara snemma að sofa. Ætlaði líka snemma að sofa í gær en fór í pappírsvinnu í staðinn og er þess vegna þreytt í dag. Hef reyndar fengið skammmtinn minn af pappírsvinnu undanfarið því við Sunna vorum að færa bókhaldið fyrir nóv. og des. til að geta skilað af okkur virðisaukaskattsuppgjöri á réttum tíma. Bókhaldsvinna hefur aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér og uppsafnaðaður tveggja mánaða skammtur varð til þess að við höfum nú sett okkur það markmið að færa það jafnóðum... hlakka til að sjá það!
1. Sitja við eldhúsborðið og lesa blöðin frá því í gær og í dag (tveir Moggar, tvö Fréttablöð og eitt Blaðið).
2. Sitja fyrir framan tölvuna og lesa blogg (of mörg til að telja þau upp hér).
Fögur fyrirheit um gönguferð í snjónum og frostinu (þó ekki nærri jafn kalt og hjá Kötu) urðu undan að láta. Í staðinn dúkkuðu upp hugsanir um rúmið mitt og koddann - en ég hef ekki látið undan þeirri freistingu ennþá. Varð sem sagt frekar syfjuð af þessu hreyfingarleysi.
Framundan er að sækja Ísak á fótboltaæfingu, sækja pítsu, og tja.... setja í eina þvottavél eða svo, kannski horfa á unglingaþáttinn Veronicu Mars og fara snemma að sofa. Ætlaði líka snemma að sofa í gær en fór í pappírsvinnu í staðinn og er þess vegna þreytt í dag. Hef reyndar fengið skammmtinn minn af pappírsvinnu undanfarið því við Sunna vorum að færa bókhaldið fyrir nóv. og des. til að geta skilað af okkur virðisaukaskattsuppgjöri á réttum tíma. Bókhaldsvinna hefur aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér og uppsafnaðaður tveggja mánaða skammtur varð til þess að við höfum nú sett okkur það markmið að færa það jafnóðum... hlakka til að sjá það!
föstudagur, 2. febrúar 2007
Það var fyndið að vera fluga á vegg
í búningsklefanum í sundi í morgun. Tvær konur voru þar staddar fyrir utan mig og fjörið byrjaði þegar önnur þeirra klæddi sig í rauða peysu.
Kona 1: Hverja sá ég í svona peysu í gær?
Kona 2: Mig, ég var líka í henni í gær.
Kona 1: Nei, það varst ekki þú, heldur einhver önnur.
Kona 2: Ég var víst í þessari peysu í gær...
Kona 1: Já, það getur vel verið en ég sá þig ekki í gær. Man að ég sá einhverja aðra konu í eins peysu en get ómögulega munað hver það var.
Þegar hér var komið sögu hafði þriðja konan birst í klefanum og blandaði sér í umræðurnar.
Kona 3: Var það kannski einhver á kóræfingu í gærkvöldi, Sigga kannski?
Kona 1: Nei, það var ekki Sigga, hún var í drapplitaðri peysu.
Kona 3: Hvað með Gunnu? Var það kannski hún?
Kona 1: Nei, það var ekki Gunna, ég man alveg eftir því í hvernig peysu hún var því hún var í svo fallegu vesti utanyfir. Kannski var það Stína?
Kona 3: Það var ekki Stína, ég man í hverju hún var því mér fannst peysan hennar svo skrýtin eitthvað...
Þegar hér var komið sögu var ég nánast sprungin úr hlátri og blandaði mér í umræðurnar.
Ég: Það er óborganlegt að hlusta á ykkur, þetta er greinilega ástæðan fyrir því að mér er ekki sama hvernig ég lít út þegar ég fer út fyrir hússins dyr.
Þær fóru að hlægja og fóru í framhaldinu að tala um það þegar þær voru litlar og mæður þeirra sögðu þeim að þær skyldu alltaf vera í hreinum sokkum og nærbuxum þegar þær færu út, því fólk gæti hvenær sem er lent í slysi og þá væri skemmtilegra að vera snyrtilegur ef maður endaði uppi á sjúkrahúsi.
Hver kannast ekki við að hafa verið innprentað eitthvað í þessa áttina? Hugsa þó að sjúkrahússtarfsfólk hafi um mikilvægari hluti að huga heldur en nærbuxur og sokka þegar það tekur á móti veikum og slösuðum...
Kona 1: Hverja sá ég í svona peysu í gær?
Kona 2: Mig, ég var líka í henni í gær.
Kona 1: Nei, það varst ekki þú, heldur einhver önnur.
Kona 2: Ég var víst í þessari peysu í gær...
Kona 1: Já, það getur vel verið en ég sá þig ekki í gær. Man að ég sá einhverja aðra konu í eins peysu en get ómögulega munað hver það var.
Þegar hér var komið sögu hafði þriðja konan birst í klefanum og blandaði sér í umræðurnar.
Kona 3: Var það kannski einhver á kóræfingu í gærkvöldi, Sigga kannski?
Kona 1: Nei, það var ekki Sigga, hún var í drapplitaðri peysu.
Kona 3: Hvað með Gunnu? Var það kannski hún?
Kona 1: Nei, það var ekki Gunna, ég man alveg eftir því í hvernig peysu hún var því hún var í svo fallegu vesti utanyfir. Kannski var það Stína?
Kona 3: Það var ekki Stína, ég man í hverju hún var því mér fannst peysan hennar svo skrýtin eitthvað...
Þegar hér var komið sögu var ég nánast sprungin úr hlátri og blandaði mér í umræðurnar.
Ég: Það er óborganlegt að hlusta á ykkur, þetta er greinilega ástæðan fyrir því að mér er ekki sama hvernig ég lít út þegar ég fer út fyrir hússins dyr.
Þær fóru að hlægja og fóru í framhaldinu að tala um það þegar þær voru litlar og mæður þeirra sögðu þeim að þær skyldu alltaf vera í hreinum sokkum og nærbuxum þegar þær færu út, því fólk gæti hvenær sem er lent í slysi og þá væri skemmtilegra að vera snyrtilegur ef maður endaði uppi á sjúkrahúsi.
Hver kannast ekki við að hafa verið innprentað eitthvað í þessa áttina? Hugsa þó að sjúkrahússtarfsfólk hafi um mikilvægari hluti að huga heldur en nærbuxur og sokka þegar það tekur á móti veikum og slösuðum...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)