Smásögur / Ljóð
miðvikudagur, 30. apríl 2008
Jákvætt
- Ég er að fara í nudd á eftir
- Ég náði að raka á mér fótleggina í sturtu áðan ;-)
- Ég gat sofið alla síðustu nótt þrátt fyrir tveggja tíma lúr í gærdag
- Ég er farin að geta gengið hraðar
- .... mér dettur ekki fleira í hug í augnablikinu...
þriðjudagur, 29. apríl 2008
Mæli ekki með því
En af því að ég er að tala um hluti sem ég mæli ekki með, þá mæli ég heldur ekki með því að lesa Flugdrekahlauparann þegar maður er í viðkvæmu skapi. Ég las bókina einn daginn sem ég var eitthvað miður mín yfir þessu bakveseni öllu saman og tárin streymdu því bókin var svo sorgleg, a.m.k. framan af. Og talandi um bækur þá er ég líka búin að lesa Ösku eftir Yrsu Sigurðardóttur og fannst það ágætis spennusaga. Gæti samt sett það helst útá hana að mér fannst aðalsöguhetjan (sem á ekki að vera nein súperhetja) vera gerð helst til "fattlaus" á köflum.
Held að ég láti þetta gott heita í bili, "see you".
mánudagur, 28. apríl 2008
Einhver leti í gangi í dag
Annars er mamma að koma norður í dag til að fara í jarðarför. Svo flýgur hún suður aftur á miðvikudaginn en á föstudaginn leggur hún aftur af stað í ferðalag, í það skiptið til Noregs. Sigurður sonur Önnu systur er að fara að fermast og ég á bókað sæti í þetta sama flug en kemst því miður ekki. Frekar fúlt eiginlega. Fyrst hélt ég nefnilega að ég kæmist ekki í ferminguna af því samkvæmt upphaflegri áætlun átti Glerártorg að opna 2. maí og fermingin er 3. maí. Svo þegar Glerártorgi var frestað varð ég voða glöð og pantaði flug til Noregs. En brjósklosið setti heldur betur strik í reikninginn og læknirinn sem skar mig upp sagði að Noregsferðin væri út úr myndinni. Enda er ég voðalega lítið farin að geta setið. Jamm og jæja, svona fór um sjóferð þá.
sunnudagur, 27. apríl 2008
8 ferðir baksund
Annað í fréttum er það helst að sólin hefur yfirgefið okkur í bili. Það þarf ekki að segja neinum hvað sólin hefur góð áhrif á okkur mannfólkið og hið sama má segja um kettina. Þau elska að sitja eða liggja úti á palli með lokuð augun og láta sólina ylja sér. Síðustu vikur hafa þar af leiðandi verið þeim jafn mikil sálubót og okkur - en núna sofa þau mest allan daginn og sýna enga tilburði til að vilja fara út. En vonandi er sólin þá bara að ylja fólki og fjórfætlingum annars staðar á landinu, það er ekki nema sanngjarnt að hún skipti sér jafnt á milli landshluta :-)
laugardagur, 26. apríl 2008
Fótsnyrting óskast
Það er Jóns Stefán vinur Ísaks og sonur Sunnu og Kidda sem er að fermast. Maður áttar sig helst á því hvað tíminn líður hratt þegar maður sér börnin vaxa úr grasi og verða að unglingum og svo fullorðnu fólki. Ísak og Jón Stefán kynntust á leikskóla svona ca. 2ja til 3ja ára gamlir og hafa verið bestu vinir síðan. Þó koma tímabil inn á milli þar sem þeir hittast minna en vinskapurinn er ávallt sá sami.
Þetta minnir mig á vinskap okkar Rósu, æskuvinkonu minnar, sem átti heima hér beint á móti mér í Stekkjargerði. Þó við höfum ekki búið í sama bæ síðan um tvítugsaldurinn, þá er þessi kjarni alltaf til staðar og iðulega jafn gaman að hittast þó það sé kannski ekki svo oft. Hin síðari ár hef ég fengið að gista hjá henni þegar ég hef verið að erindast í höfuðborginni og það er alltaf jafn notalegt.
föstudagur, 25. apríl 2008
Gaman gaman
P.S. Og bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er ég bara í góðum gír þessa dagana, þrátt fyrir brjósklos og bólur. Þessi pistill minn hér að neðan var meira svona pælingar um heildarsamhengi hlutanna en ekki merki um að ég væri alveg að tapa glórunni af streitu akkúrat hér og nú. Bara áminning til sjálfrar mín um að muna líka eftir því að gera hluti sem veita mér ánægju og hjálpa til við að hlaða batteríin.
fimmtudagur, 24. apríl 2008
Eureka
Gleðilegt sumar
Enn einn dýrðardagurinn hér í höfuðstað Norðurlands. Spáin var víst ekki svona góð en gott að hún skyldi ekki standast því hér er nýhafið Andrésar andar mót á skíðum og gaman fyrir krakkana að fá svona gott veður.
Við Valur röltum einn lítinn hring hérna í hverfinu í morgun og ég er nú öll að styrkjast þó mér finnist þetta ganga voðalega hægt. Í dag er kominn hálfur mánuður frá því ég fór í aðgerðina og þrátt fyrir að mér finnist hver og einn dagur óskaplega lengi að líða þá hefur þetta nú liðið býsna hratt. Vonandi verð ég orðin þokkalega spræk eftir mánuð þegar Pottar og prik opna á Glerártorgi :-)
P.S. Valur tók þessa mynd seinni partinn í júlí árið 2005 þegar við fórum einn kvöldrúnt til að taka myndir með Canon myndavélinni sem við höfðum þá nýlega keypt.
miðvikudagur, 23. apríl 2008
Skottið eins og klósettbursti
Ég lá (aldrei þessu vant) á sófanum í stofunni og hurðin út í garð var opin enda áframhaldandi gott veður hér norðan heiða. Þá kom Birta inn og ég sá að skottið á henni var býsna digurt svo ég staulaðist á fætur og leit út. Þar var Máni búinn að fela sig inni í trjábeði og fyrir framan það lá bröndóttur köttur og starði á Mána. Upp var greinilega komin einhver pattstaða en um leið og ég kom í dyrnar lagði sá bröndótti á flótta, þó hægt færi. Um leið og hann var búinn að snúa bakinu í Mána kom hinn síðarnefndi út úr trjábeðinu og vá hvað skottið á honum var úfið. Nú þegar honum hafði borist liðsauki þandi hann brjóstið og rak upp ámátlegt hljóð sem hefur kannski átt að stökkva óvininum á frekari flótta en var of væskilslegt til að ná fullkomnum árangri. Til að fylgja hljóðinu eftir með verklegum hætti lagði Máni af stað á eftir þeim bröndótta sem gekk aðeins hraðar á brott með skottið á milli lappanna (í orðsins fyllstu merkingu). Ég kallaði á Mána því ég óttaðist að hann væri að lenda í slagsmálum en hann þóttist ekki heyra í mér. Þrátt fyrir digurbarkalega hegðun elti hann óvininn ekki lengra en að endamörkum lóðarinnar en þar stóð hann svo í smá stund áður en hann snéri við og kom til mín. Með þetta líka risastóra skott! Fram til þessa hefur Máni seint getað talist með hugrökkustu köttum svo ég veit ekki alveg hvað hefur komið yfir hann.
þriðjudagur, 22. apríl 2008
Skrautlegt skýjafar
Ég held áfram að hrella fólk með endalausum myndbirtingum. Hehe, en af því mér finnst það skemmtilegt þá ætla ég ekki að hætta því, enda er þetta mín síða og þ.a.l. ræð ég hvað birtist á henni :-)
Þolinmæði er þrautin þyngri
Í morgun lá ég á netinu og las spjallsíður fólks sem hefur farið í svona aðgerð á www.spine-health.com og þar sá ég svart á hvítu að þetta getur tekið langan tíma að jafna sig allt saman. Og sumir sem fara of skarpt af stað fá nýtt brjósklos á sama stað. Þannig að ég verð bara að samþykkja þetta ástand og vera ekki að hugsa um allt sem ég get ekki gert - sem er nú hægara sagt en gert. Ég hef t.d. verið að setja í eina og eina þvottavél en í gær sá ég að ég get ekki lengur hengt upp þvottinn (þetta voru bara örfáir bolir, engin þyngd í þeim) án þess að fá í bakið. Þannig að í morgun þegar Andri leitaði árangurslaust í herberginu sínu að hreinum nærbuxum fékk hann það verkefni að setja í þvottavélina. Svo heppilega vildi til að síðan var tveggja tíma frí hjá honum í skólanum þannig að hann kom þá heim og hengdi upp úr vélinni. Einnig reimaði hann skóna á mömmu sína svo hún komst út í smá gönguferð.
Nú ligg á sófanum ég með tölvuna í fanginu og var að skoða myndir sem ég tók í gær af skýjafarinu við Súlur. Við fyrstu sýn sýndust mér þær ágætar en svo sé ég að það vantar herslumuninn uppá að nokkur þeirra sé virkilega góð. Ég er nú samt að hugsa um að birta eina á blogginu á eftir, bara svona til að gefa hugmynd um hvað himininn var skrautlegur þarna í smá stund í gær.
Svo þarf ég að þjálfa mig upp í að geta gert gáfulega hluti standandi/liggjandi. Ég er svo vön því að sitja við skrifborð þegar ég er að vinna að mér bara finnst það ógjörningur að hugsa eða vera skapandi útafliggjandi. En þetta er örugglega bara þjálfunaratriði.
sunnudagur, 20. apríl 2008
Góður dagur
laugardagur, 19. apríl 2008
Já einmitt!
Og nú er ég búin að blogga enn einu sinni - treysti því að Hrefna mín verði ánægð með frammistöðuna hjá mömmu sinni :-)
Eplatré í blóma
Ég var úti að ganga með myndavélina áðan þegar það kallaði í mig kona sem býr í næstu götu fyrir neðan mig og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af eplatrénu hennar því það væri í fullum blóma. Ég sagði að ég væri eiginlega ekki með réttu linsuna en vildi samt endilega sjá tréð. Þegar til kom þá sá ég að ég næði alveg að mynda tréð. Stóðst ekki að birta myndina því það var svo gaman að sjá þessa grósku núna þegar flestallur gróður er enn undir snjó.
Hehe, mér hefndist fyrir að segja að ég væri orðin verkjalaus
Úti er þetta fína fína veður og ekki spurning að ég verð að drífa mig út að ganga. Ísak er farinn á fótboltaæfingu og Valur er farinn á fræðsludag í vinnunni. Svo er árshátíð hjá þeim í kvöld, það verður farið á Friðrik V. og borðað þar. Hefði verið fráært að komast með en því er víst ekki að heilsa núna og þýðir ekkert að fást um það. Andri sést lítið heima við þessa dagana, er alltaf hjá kærustunni. Þannig að það verða bara ég og kettirnir sem förum saman út að spássera.
Valur er í bókaklúbbnum Neon og fékk senda nýja bók í gær. Hún heitir "Kona fer til læknis" og er eftir hollenskan mann, Ray Kluun að nafni. Ég greip hana fegins hendi því mig vantað einmitt einhverja kilju sem handhægt er að lesa liggjandi. Bókin fjallar um mann, giftan með eitt barn, sem lifir í lukkunnar velstandi þegar konan hans greinist með krabbamein. Þrátt fyrir að um mjög alvarlegt krabbamein sé að ræða og konan deyi úr því á endanum heldur maðurinn áfram að halda fram hjá henni, eins og hafði verið venja hans fram að því. Fyrst í stað með hverri þeirri dömu sem hann hittir og er til í tuskið en svo með einni ástkonu. Barnið er tveggja/þriggja ára þegar þetta er. Konan veit af framhjáhaldinu en ákveður að hún vilji fremur eyða síðustu mánuðum ævi sinnar með honum heldur en án hans. Hún skrifar falleg bréf til litlu dótturinnar sem mun ekki koma til með að muna neitt eftir móður sinni þegar hún vex úr grasi. Þar sem sagan gerist í Hollandi endar konan á því að fara fram á líknardráp og verður að þeirri ósk sinni. Maðurinn hugsar óaðfinnanlega um hana á endasprettinum og þetta verður eins hamingjusamur dauðdagi og hægt er að fara fram á.
Ástæðan fyrir því að þessi bók vekur með mér vanlíðan er ekki bara framhjáhald mannsins þó það hefði eitt og sér nægt til þess að vekja með manni vissan viðbjóð. Það sem setur mig úr jafnvægi er sú staðreynd að þessi saga er sönn, þ.e. kona rithöfundarins dó úr krabbameini og í kjölfarið skrifaði hann þessa metsölubók. Maður getur velt fyrir sér siðferðinu á bak við það að "nota" látna eiginkonu á þennan hátt en það sem situr í mér er dóttirin. Hvernig mun það verða fyrir hana þegar hún er komin til vits og ára (er víst 9 ára í dag) að lesa þessa bók? Kannski pabbi hennar verði þá fyrir löngu búinn að segja henni söguna sem slíka en einhvern veginn finnst manni það ekki sanngjarnt gagnvart henni að byrja lífið með svona bagga á bakinu. Það er að segja, ekki nóg með að mamma hennar sé dáin og hún alist upp hjá konunni sem var viðhald pabbans á meðan mamman lá á dánarbeði (kemur fram í viðtölum við höfundinn á netinu að hann er núna giftur fyrrum viðhaldinu og þau eiga barn saman) heldur veit allur heimurinn af því að pabbinn: a) hélt framhjá mömmunni og b)gerði sér mat úr þessum aðstæðum með því að skrifa um þær bók og hagnaðist þannig fjárhagslega á ölllu saman.
Jamm og jæja, þetta voru vangaveltur dagsins. Held að ég snúi mér að meira uppörvandi hlutum núna, eins og að fara út í góða veðrið.
Sé ekki alveg hvernig ég á að geta tekið því rólega í 6 daga enn...
föstudagur, 18. apríl 2008
Tveir kettir lögu af stað í leiðangur
Léttara yfir mér í dag
Það vantaði súrmjólk í kökuna svo ég lét mig hafa það að rölta út í búð. Frá á fæti er ég nú ekki en ég komst báðar leiðir þrátt fyrir að vera orðin ansi lúin í vinstri fætinum þegar heim var komið. Ég finn að það er að koma meiri tilfinning í hann en samt vantar töluvert uppá kraftinn ennþá.
Nú vantar bara fólk í kaffi til að borða blessaða kökuna :-)
fimmtudagur, 17. apríl 2008
Held að ég sé að verða búin að lesa öll blogg á Íslandi
Þetta voru þriðju mistök mín í dag. Mistök nr. 1 voru að leggja mig aftur eftir að Ísak var farinn í skólann og sofa til klukkan hálf ellefu. Mistök nr. 2 voru að borða súkkulaðistykki (Lion bar) sem Andri skildi eftir á eldhúsborðinu, strax á eftir Udo´s olíu og súrmjólk með múslí. Nú ligg ég í sófanum með tölvuna í fanginu, uppþemd og ropandi (skemmtileg lýsing), með höfuðverk af blogglestri og er ekki einu sinni búin að fara í sturtu í dag, hvað þá að klæða mig úr náttfötunum eða fara út að ganga. Já, þetta er hálf "pathetic" eitthvað.
Sólin skín úti og hitinn er einhverjar plúsgráður, Máni liggur til fóta hjá mér en ég veit ekki um Birtu. Annað heimilisfólk er í vinnu og skóla.
Þegar ég fór að sofa í gær var ég í jákvæðnikasti, sá sjálfa mig fyrir mér læknast fljótt af þessu brjósklosi, byggja mig upp í vetur og fara að skokka næsta sumar - en þegar ég vaknaði í morgun var ég bara leið yfir því að framundan væri enn einn dagurinn í veikinda"fríi".
En svo ég sé nú aðeins á jákvæðu nótunum líka, þá held ég að þetta sé allt að koma. Í dag er vika frá aðgerðinni og ertingin í skurðsárinu sem var að gera mig vitlausa í gær er mun minni í dag. Mér er ekkert illt í bakinu sjálfu og ég er ekki frá því að það sé örlítið meiri máttur í vinstri fætinum. Er samt ennþá dofin fyrir neðan hné og það er stórfurðulegt að strjúka yfir húðina þar.
Nú heyrði Máni í fuglum úti og stökk allt í einu uppá sófabakið til að tékka betur á þessu. En letin náði yfirhöndinni aftur og hann lagðist á sama stað. Nú er bara spurning hvað hinn letihaugurinn í sófanum gerir...
miðvikudagur, 16. apríl 2008
Endalaus blogg...
Eintóm myndablogg þessa dagana
Er voðalega löt í dag eitthvað og bara búin að hanga í tölvunni síðan um áttaleytið - eða jú ég borðaði líka morgunmat ;-) Annars er tölvan að stríða mér, þegar ég skrifa texta þá hoppar bendillinn tilbaka alveg ófyrirsjáanlega, oft um einhverja stafi, stundum fer hann nokkrar línur tilbaka og þá er ég allt í einu farin að skrifa ofan í það sem ég hafði skrifað áður. Reyndi að hringja áðan í tölvumanninn okkar en hann var ekki við. Konan sem svaraði í símann ætlaði að biðja hann að hringja í mig, verður spennandi að sjá hvernig það fer...
þriðjudagur, 15. apríl 2008
Alveg á útopnu - eða næstum því
Þetta var stöðuskýrsla úr Stekkjargerði 7, þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 19.42
mánudagur, 14. apríl 2008
Á móti sól
Ég er að reyna að finna leiðir til að njóta þessa að vera heima (takið sérstaklega eftir því að ég sleppti neikvæðu lýsingunni "að finna leiðir til að drepa tímann") þrátt fyrir að hreyfigetan sé afar takmörkuð. Nú er komið hádegi og þetta gengur bara nokkuð vel. Lá í sófanum og las mér til um myndavélina mína og fór svo að svipast um eftir myndefnum. Tók fyrst nokkrar myndir af blómunum sem mér voru færð á sjúkrahúsið (Valur kom með rósavönd og Surekha kom með fjólubláa túlipana) en fór svo út á tröppur og smellti af nokkrum myndum þar. Ekkert smá flott veðrið núna! Ég myndi fara út að ganga, þó ég þyrfti að skakklappast, ef ég bara kæmist í skóna mína en það geri ég víst ekki.
Góðu fréttirnar eru þær að byggingafulltrúi er búinn að samþykkja teikningarnar að versluninni okkar á Glerártorgi þannig að nú geta framkvæmdir hafist. Stefnt er að opnun þann 22. maí.
sunnudagur, 13. apríl 2008
Einhverjir græða á ástandinu...
laugardagur, 12. apríl 2008
Komin heim eftir brjósklos + aðgerð
Ég held að ég nenni ekki að skrifa meira í bili, hef ekki mikið úthald í að standa kyrr, a.m.k. ekki ennnþá.
sunnudagur, 6. apríl 2008
Dýrðardagur í Hlíðarfjalli
Núna sit ég fyrir framan tölvuna (hm, þú segir ekki...) og ætlunin var að fara að vinna í bókhaldi enda ekki seinna vænna, við eigum að skila virðisaukaskattinum á morgun. Letin er bara alveg að drepa mig í augnablikinu - en það þýðir nú víst ekki að láta endalaust undan henni. Nóbb, bara bretta uppá ermarnar, spýta í lófana og allt heila klabbið :-)
laugardagur, 5. apríl 2008
Valur í Vaðlaheiði
Við Valur fórum í stutta ljósmyndaferð yfir í heiði í dag. Veðrið var frábært og það var alveg meiriháttar gott að fara aðeins út í sólina. Myndirnar heppnuðust fæstar en það er í raun ekki aðalatriðið að mínu mati. Meira máli skiptir að vera úti og gleyma sér um stund við að taka myndir.
föstudagur, 4. apríl 2008
Tapað - fundið
Annars er fátt í fréttum. Ég fékk einhverja pesti sem byrjaði með miklum höfuðverk í fyrradag og við bættust síðan alveg hrikalegir beinverkir og almenn vanlíðan. Sem betur fer gat Nanna unnið fyrir mig í gær og ég svaf nánast óslitið frá átta til fjögur. Hresstist töluvert eftir kvöldmatinn en þorði ekki annað fá Nönnu til að vinna fyrir mig í dag líka og afboðaði klúbbinn sem ég ætlaði að halda í dag. Svo steinsvaf ég í alla nótt og vaknaði svona líka hress í morgun. Dauðsá eftir því að hafa sjálfkrafa gert ráð fyrir því að vera veik í dag og fannst ekki spennandi tilhugsun að þurfa að eyða deginum innan dyra þegar ég var orðin svona hress. En eftir að hafa stússast aðeins í eldhúsinu og farið tvær ferðir milli hæða var ég orðin svo þreytt að ég þurfti að setjast og hvíla mig, þannig að þetta er greinilega týpisk víruspesti þar sem maður er hressari inn á milli en dettur svo niður í svaka þreytukast. Og þá er víst ekki um neitt annað að ræða en taka því rólega og reyna að jafna sig.
Það er eiginlega hálf klént að blogga svona í sífellu um eigið heilsufar og mér koma í hug samskipti sem ég heyrði í heita pottinum um daginn. Þegar ég kom ofan í pottinn var þar fyrir staddur karlmaður sem ég spjalla stundum við og hann fór óðara að segja mér frá því að hann hefði fengið í bakið við að moka snjó um daginn. Hann hafði vart lokið frásögninni þegar einhver kunningi hans kom í pottinn og sá bakveiki tók aftur til máls: "Ja, nú er það ljótt maður. Heldurðu að ég hafi ekki verið að moka snjó og fengið svona rosalega í bakið. Ég var bara alveg að drepast." Þá svarar hinn: "Það er nú ekkert nýtt, þú ert alltaf hálfdauður, væri ekki bara betra að drepast alveg?"
Kunninginn virtist vera búinn að fá yfir sig nóg af sjúkrasögum félagans og líklega getur það verið býsna þreytandi fyrir þá sem þurfa að hlusta á/lesa um veikindi annarra. Gallinn er bara að maður fær vissa fróun við það að geta sagt öðrum frá vandamálum sínum, maður er þá ekki lengur jafn mikið "Palli var einn í heiminum" og fer að líða aðeins betur andlega. Hins vegar hefur það þótt styrkleikamerki að bera harm sinn í hljóði og mér finnst ég stundum vera voðalegur aumingi eitthvað að vera að "væla" svona. Þannig að það er ekki alltaf gott að vita hver rétta leiðin er í þessum málum, frekar en öðrum.