Smásögur / Ljóð
mánudagur, 29. júní 2009
Komin heim úr 5 daga ferð á Vestfirði
Við fórum af stað á miðvikudagsmorgni og ókum sem leið lá vestur í Stykkishólm. Þar fengum við okkur að borða og skoðuðum vatnasafnið en tókum svo ferjuna yfir til Flateyjar þar sem við gistum yfir nótt. Það var yndislegt að vera í Flatey og við sváfum í húsi niðri við sjó með fuglasöng í eyrunum alla nóttina.
Um hádegi næsta dag sigldum við svo með Baldri áfram að Brjánslæk og tók sú ferð ekki nema rúma klukkustund. Þar fengum við okkur að borða að Hótel Flókalundi en ókum svo á Rauðasand. Stoppuðum bílinn að Melanesi og gengum áleiðis að Sjöundaá en komumst víst ekki alla leið. Fórum bara niður í fjöru og nutum þess að vera þar við sjóinn í alveg frábæru veðri. Með í för var hundur af næsta bæ við Melanes og fylgdi hann okkur allan tímann. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með honum leika sér í sandinum.
Næst lá leiðin að Látrabjargi þar sem við gengum uppá bjargið og fylgdumst með fuglunum í dágóða stund. Við skriðum á maganum fram á bjargbrúnina til að ná sem bestu sjónarhorni án þess að vera í hættu á að detta niður. Næst lá leiðin að Breiðuvík þar sem við borðuðum síðbúinn kvöldmat, kjöt í karrý, um hálfníu leytið um kvöldið.
Við athuguðum með gistingu að Hnjóti en þar var ekki hægt að fá morgunmat og þar sem við vorum ekki með neinn mat meðferðis (smá klaufaskapur í skipulagningunni...) ákváðum við að fara frekar á Patreksfjörð. Þar fengum við gistingu hjá gamalli konu sem var búin að reka gistiheimili í 30 ár, hvorki meira né minna. Hún sagði að fyrir 30 árum hefði þetta verið rosalega flott og vissulega hafði aðstaðan eitthvað látið á sjá en engu að síður var herbergið stórt og snyrtilegt og allt 100% hreint. Morgunmaturinn var líka afskaplega glæsilegur.
Þegar hér var komið sögu var mig farið að langa mikið í sund og úr varð að við fórum í sund á Tálknafirði. Þar er ágætasta útisundlaug og heitir pottar. Svo ókum við á Bíldudal en bærinn sá var fullur af fólki vegna þorpshátíðar sem bar nafnið Bíldudals grænar. Við ætluðum að kaupa okkur nesti til að taka með okkur í Selárdal en lentum í vondum málum því engin er kjörbúðin á staðnum. Það eina sem hægt var að kaupa voru smurðar samlokur úr hræðilega vondu fransbrauði - en betra en ekki neitt.
Leiðin út í Selárdal var afskaplega falleg og við nutum glampandi sólar og hita, eins og allan tímann í ferðinni. Stoppuðum oft og fórum út úr bílnum og tókum myndir. Það var svolítið skrítið að sjá listaverkin hans Samúels, hann hefur verið afar sérstakur svo ekki sé meira sagt, en gott að verið er að gera þau upp því þetta er merk heimild.
Nú var brunað aftur á Bíldudal þar sem við tókum bensín en þaðan lá leiðin alla leið á Þingeyri við Dýrafjörð þar sem Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg kona hans eru að gera upp gamalt hús. Við stoppuðum reyndar dágóða stund, fyrst á Dynjandisheiði og svo við fossinn Dynjanda, og tókum myndir og nutum góða veðursins.
Á Þingeyri dvöldum við svo í góðu yfirlæti frá föstudagskvöldi fram á sunnudagsmorgun. Skelltum okkur meðal annars á kaffihús, Simbahöllina, sem ung hjón voru að opna. Maðurinn er belgískur og konan er dönsk en þau keyptu gamalt hús fyrir nokkrum árum og hafa verið að gera það upp síðan með góðum árangri. Þetta er ungt og kraftmikið fólk og gaman að sjá hvað þau eru mikil lyftistöng fyrir plássið.
Í gærmorgun lögðum við svo af stað heim á leið eftir ljúfa dvöl hjá Hirti og Guðbjörgu. Ókum alla leið nánast í einum rykk en stoppuðum þó í Flókalundi og Búðardal til að fá okkur að borða. Engu að síður tók heimferðin nærri 8 tíma, enda keyrir maður ekki hratt á íslenskum malarvegum. Heima biðu tveir kettir, tveir synir og Hrefna og Erlingur sem eru komin heim í sumarfrí. Það var gaman að sjá þau öll og Valur skveraði fram þessari dýrindis máltíð eins og ekkert væri, þrátt fyrir langan akstur heim.
P.S. Ég ætla að setja inn myndir úr ferðinni, þarf bara að gera það í annarri tölvu, en það verður bráðlega.
laugardagur, 20. júní 2009
Fyrsti veiðitúr sumarsins hjá Val
Ég vaknaði klukkan hálf átta í morgun eins og lög gera ráð fyrir en af því það er nú laugardagur þá reyndi ég af miklum móða að sofna aftur - og tókst það. Vaknaði næst klukkan hálf tíu og fór þá á fætur. Búin að liggja í rúminu í tíu og hálfan tíma og orðin stíf eins og staur. Þá er sundið bjargvætturinn og ég var nú öll mýkri og betri að því loknu. Ákvað að gera mér dagamun og í stað þess að fara heim að borða morgunmatinn fór ég í Pennann og fékk mér kaffilatté og fletti nokkrum tímaritum. Þar á eftir fór ég á smá búðarrölt og keypti mér meira að segja einn bol. Efnið í honum fannst mér rosalega fallegt en veit ekki alveg með sniðið. Þarf að máta við einhverjar flíkur sem ég á til að sjá hvort ég ætla að eiga hann eða ekki.
Þar sem kokkurinn er ekki heima þarf ég að elda matinn í kvöld og varð lambahryggur fyrir valinu. Ég ætlaði að fletta upp í hinni sígildu Helgu Sigurðar en fann þar ekkert um steikingu á lambahrygg. Kannski hef ég ekki leitað nógu vel. En það reddast. Verra með sósuna. Ég hef ekki gert brúna sósu í háa herrans tíð. Synirnir eru hins vegar miklir sósukallar, eins og meginþorri Íslandinga reyndar, þannig að ég reyni að sulla einhverju saman :-) Og nú er ég að spá í að fara smá rúnt og vita hvort ég rekst ekki á einhver myndefni.
fimmtudagur, 18. júní 2009
Öðruvísi dagur
miðvikudagur, 17. júní 2009
Gaman að fá gesti
þriðjudagur, 16. júní 2009
Konsert í gufunni
sunnudagur, 14. júní 2009
Valur horfir yfir bæinn
Þessi bekkur er staðsettur innst í Kotárgerði og alveg upplagt að fá sér sæti á sólríkum sumarkvöldum og fylgjast með sólinni setjast.
laugardagur, 13. júní 2009
Laisy Daisy
föstudagur, 12. júní 2009
Alein í Mullersæfingunum í morgun
þriðjudagur, 9. júní 2009
Í Skíðadal
Við Valur fórum í enn eina ljósmyndaferðina síðasta sunnudag. Í þetta sinn var ferðinni heitið í Svarfaðardal. Ókum við svo inn Skíðadal og hluta af einhverjum vegi inn á afrétt. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þetta fjall heitir en það var afskaplega tíguleg fjallasýnin þarna.
Annað gengur sinn vanagang. Máni lenti í slagsmálum í gær og var með stórt gat á skottinu þar sem hann hefur verið bitinn. En sárið virðist ætla að gróa af sjálfu sér og engin ástæða til að fara með hann til dýralæknis.
Ísak er byrjaður í vinnuskólanum og Andri byrjar líklega bráðum að vinna hjá okkur í Pottum og prikum. Byggingafyrirtækið sem hann hefur unnið hjá síðastliðin tvö sumur er hætt starfsemi svo ekki fékk hann vinnu þar. Hins vegar getum við ekki boðið honum nema rúmlega hálfa vinnu eða svo - en pabbi hans ætlar líka að ráða hann í vinnu við húsamálun held ég.
Það styttist í sumarfrí hjá Val og þar með fyrstu og einu skipulögðu veiðiferð sumarsins. Sem er líklega 90% samdráttur frá undanförnum árum. Spurning hvort hann á ekki eftir að redda sér einhverjum túrum, ætli hann þoli nokkuð við öðruvísi. Annars er ekkert planað hjá okkur í sumar, ætli þetta verði ekki bara látið ráðast allt saman.
sunnudagur, 7. júní 2009
Lyngrós held ég að hún heiti
og er í garðinum hjá okkur. Hefur verið ósköp óframfærin síðustu sumur en nú allt í einu er fullt af blómum. Gaman að því :)