Smásögur / Ljóð

þriðjudagur, 20. október 2009

Tiltektaræðið hefur hlaupið með frúna í gönur

Eða það lítur að minnsta kosti út fyrir það. Í morgun átti Ísak að fara í leikfimi og spurði eftir græna bolnum sínum. Mamman varð hálf vandræðaleg og spurði hvort hann hefði ekki verið orðinn alltof lítill... Ekki vildi nú sonurinn alveg kannast við það - en græni bolurinn góði hvílir nú hjá Rauða krossinum. Ísak á alveg annan íþróttabol, bara svona ef þið skylduð halda að ég hafi ekki skilið neitt eftir í skápnum hans, en krakkar geta verið mjög fastheldnir á gamla hluti. Ég man nú eftir því með sjálfa mig. Átti klossa sem voru orðnir alltof litlir á mig en lét mömmu aldrei vita af því svo þeir myndu ekki hverfa. Var lon og don í klossunum og endaði með krumpaðar tær... Veit nú reyndar ekkert hvort það er klossunum að kenna en tærnar á mér eru hálf krumpaðar greyin :-)
Núna áðan komu svo tveir krakkar frá Fjölsmiðjunni og sóttu gamalt tölvuborð og fatahengi í forstofu. Fjölsmiðjan er með vinnusetur fyrir unga krakka sem ekki hafa fundið sig í skóla eða vinnu annars staðar (ef ég skil þetta rétt). Þar er líka nytjamarkaður og alveg frábært að geta gefið hluti sem annars taka bara pláss í geymslunni eða enda á haugunum. Svo bíður fullur svartur plastpoki af dóti sem ég ætla með í Hertex, þannig að ég er ekki alveg hætt ennþá. Já og svo fann ég brennisteinssýru (eða eitthvað álíka eitur) í geymslunni í kjallaranum og þarf að fara með það í Endurvinnsluna. Nú, svo mér leiðist örugglega ekki á næstunni þá þarf líka að fara með kettina í sprautu, fara með bílinn í þjónustuskoðun og flíspeysuna hans Andra í viðgerð. Sem sagt nóg að gera!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný