Smásögur / Ljóð
▼
sunnudagur, 18. október 2009
Dugnaðardagur í dag
Já, það kemur fyrir, ekki oft... En við Valur tókum góðan skurk í dag. Fyrst fór hann út að sópa laufin sem voru búin að safnast fyrir á bílaplaninu og stéttinni fyrir utan. Svo fór hann að setja inn sumarhúsgögnin og þá ákvað ég að taka þátt í fjörinu og fór með honum í útigeymsluna. Þar tíndum við til rusl og gamalt dót sem mátti henda og löguðum til. Það endaði með því að við fórum með fulla kerru á gámana, hvorki meira né minna, og nú er aðeins rúmbetra þarna inni. Svo bakaði Valur vöfflur og Andri og Sunneva komu í kaffi (já og Ísak var heima líka) og við hámuðum í okkur góðgætið. En ég var enn í tiltektarstuði. Fór næst í skápinn í forstofunni og tíndi til skó sem áttu ýmist að fara í geymslu eða út í bílskúr. Næst á dagskrá var geymslan undir stiganum og þar náði ég að fylla einn svartan stóran ruslapoka með dóti sem á að henda og annan poka með nýtilegu dóti sem fer í Rauða krossinn eða Hjálpræðisherinn. Þegar hér var komið sögu var ég nú orðin ansi lúin og búin að fara langt fram úr sjálfri mér - en enn í gírnum... svo ég lagaði aðeins til í hillunum í búrinu líka. Nú er ég hætt! Farin að prjóna og hvíla mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný