Smásögur / Ljóð

miðvikudagur, 6. maí 2009

Þá er hin ágætasta Danmerkurferð að baki

og allt gekk eins og í sögu. Þetta var náttúrulega svolítið mikið ferðalag, svona "planes, trains and automobiles" en það var voða gaman að hitta alla. Hrefnu mína, Önnu systur, Kjell-Einar og Sigurð, Palla og Jönu, og krakkana hans Palla + Birte, fyrrverandi konuna hans. Það eina sem hefði mátt vera betra var veðrið en það var úrhelllis rigning á sunnudeginum þegar fermingarveislan var haldin.

En ekki skorti nú veitingar í veislunni og var allt ljómandi gott. Enda tók svo langan tíma að borða + vera með skemmtiatriði að veislan stóð í 7 tíma, hvorki meira né minna. Það er að segja, við fórum heim eftir 7 tíma en margir voru lengur. Það hafði verið skipulagður leikur í lok dags en sökum rigningarinnar varð ekkert af honum. Eftir leikinn átti svo að bjóða uppá grillaðar pylsur þannig að Palli var með 120 pylsur í skottinu á bílnum sem hann þurfti svo bara að keyra heim aftur. En já maturinn var nú ekkert slor, það var túnfiskpaté með salati í forrétt, lamba-, kalkúna-, og kálfakjöt + alls skyns meðlæti í aðalrétt, súkkulaðikaka, súkkulaðimús, jarðarberja- og rabbarbarabaka, frómas og heimagerður ís í eftirrétt. Þar á eftir var svo kaffi, kransakaka og nammi. Púff, maður náttúrulega tróð í sig... en mér leið samt ágætlega alveg þar til ég fór ferð nr. 2 að eftirréttahlaðborðinu, það var too much!

Á mánudaginn vöknuðum við svo kl. sjö (fimm að íslenskum tíma...) og lögðum af stað til Vejle korter í átta en það tekur ca. 45 mín. að keyra til Vejle. Palli ók okkur þangað til að ná lestinni til Köben. Lestarferðin tók um 3 tíma og svo tók við 2ja tíma bið á flugvellinum + 3ja tíma flugferð til Íslands. Þar beið Ásgrímur eftir mömmu en ég tók rútuna á BSÍ og leigubíl á flugvöllinn þar sem ég beið í rúman klukkutíma eftir flugi norður. Og það var nú voða gott að koma heim og leggjast í sitt eigið rúm um kvöldið. Ég var eitthvað svo upprifin í ferðalaginu að ég svaf ansi lítið á næturnar og er þar af leiðandi búin að sofa eins og steinn fyrstu tvær næturnar heima.

En sem betur fer var ég í fríi í gær frá vinnunni og gat hvílt mig - og lesið bók... Anna systir lét mig nefnilega fá bók nr. 2 eftir Stieg Larsson, Jenten som lekte med ilden, á sunnudagskvöldið og ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorguninn í lestinni. En átti afskaplega erfitt með að leggja hana frá mér fyrr en hún var búin, enda mjög spennandi. En ég kláraði hana í gær, rétt fyrir kvöldmat, þannig að nú get ég farið að sinna heimilisstörfum og öðru sem ég mátti ekki vera að í gær sökum lestrarfíknar :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný