Smásögur / Ljóð

laugardagur, 11. ágúst 2007

Vinna, Króksmót og lengri leiðin heim

var þema dagsins hjá mér. Ísak lagði af stað á Króksmót (fótboltamót sem haldið er á Sauðárkróki eins og nafnið gefur til kynna) fyrir sjö í morgun en hvorugt okkar foreldranna fylgdi honum þá. Valur var að fara að veiða í Fnjóská og ég var að fara að vinna. Mér fannst samt ótækt annað en sjá einhverja leiki, svo ég fékk hana Önnu (sumarafleysingakonu hjá okkur) til að leysa mig af í vinnuni klukkan hálf eitt. Áður en ég lagði af stað á Krókinn kom ég við í hverfisbúðinni á eyrinni (sem ágætur Pólverji er búinn að blása lífi í að nýju) og keypti mér orkudrykk og pólkst sælgæti, einhvers konar afbrigði af Prins pólói, nema hvað þetta var með karamellubragði. Þetta bjargaði mér reyndar alveg á leiðinni því ég hafði smurt mér nesti en tókst að gleyma því í vinnunni... alltaf jafn "bright".
Ísak var glaður að sjá mömmu sína og ég horfði á tvo leiki og þeir þá unnu báða. Eru efstir í sínum riðli eftir daginn. Svo gerði ég tilraun til að heimsækja konu sem ég þekki á Króknum en hún var ekki heima og þá lagði ég í hann aftur til Akureyrar. Datt í hug að það gæti verið gaman að keyra aðra leið heim og fór sem sagt Fljótin og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Það var rigning og súld á leiðinni en samt svakalega fallegt um að litast og ég saknaði þess að hafa ekki myndavélina meðferðis. Á Ólafsfirði gerði ég aðra misheppnaða tilraun til að heimsækja vinafólk en þegar það tókst ekki hélt ég áfram og í gegnum göngin. Þar var brjáluð traffík og ég komst að því að einbreið göng virka ekkert rosalega vel í mikilli umferð, var á taugum alla leið í gegn. Á Dalvík var allt troðið af fólki og bílum enda Fiskidagurinnn mikil nýafstaðinn og ég sniglaðist þar í gegn. Svo gekk nú umferðin betur til Akureyrar og heim er ég kommin í tómt hús, tja ekki alveg tómt reyndar, kettirnir fögnuðum mér eins og þeim einum er lagið :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný