Smásögur / Ljóð

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Afrekaði að sofa til klukkan ellefu

(ef afrek skyldi teljast) og hef verið eins og klessa það sem af er degi af þeim sökum. Var undirlögð í skrokknum og voða lúin eitthvað og nennti engan veginn að keyra á Krókinn til að vera viðstödd seinni mótsdaginnn. Fékk svo samviskubit yfir því, þannig að það var svolítið erfitt að vera til í smá tíma í dag. Ákvað að rífa mig upp úr þessum aumingjaskap og dreif mig í sund þó ég nennti því engan veginn. Það var samt virkilega gaman því þar hitti ég stelpu (hm, eða konu, allt eftir því hvernig á það er litið) sem ég æfði með sund í gamla daga. Hef ekki séð hana síðan þá, held ég bara. Mér tókst með herkjum að synda minn venjulega skammt og kom uppúr lauginni ögn hressari en ég fór ofan í hana. Kom heim og borðaði skyr með miklum rjóma og linsoðið egg (spurning hvort það er ellimerki - hef aldrei getað hugsað mér að borða linsoðin egg fyrr en núna nýlega) og tók svo góðan skurk í eldhúsinu. Tók úr uppþvottavélinni, setti í hana aftur, þurrkaði af borði og bekkjum og á bara eftir að ryksuga. Þurfti smá pásu áður en ég vind mér í þá iðju. Það þarf nefnilega að ryksuga alla efri hæðina, ekki bara eldhúsið. Meira hvað þetta ryk skal alltaf koma aftur og aftur...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný