Smásögur / Ljóð

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

Yndislegt

að trítla léttfætt út í frostið og láta sig svo leka eins og máttlaust hrúgald ofan í heita pottinn. Sitja þar um stund, horfa á þétta gufuna sem stígur upp af vatninu, hlusta á rödd sundkennarans sem sendir skólakrakkana af stað yfir laugina, hlusta á hlátrasköll karlanna sem eru í pottinum við hliðina og ræða lífsins gagn og nauðsynjar. Fara upp úr pottinum og ganga örfá skref að gufunni sem bíður passlega heit og góð. Setjast á bekk, lygna aftur augunum og slaka vel á fyrir amstur dagsins. Drífa sig svo í sturtu og þaðan í búningsklefann þar sem notalegt skvaldur kvennanna leikur undir á meðan farið er í fötin og hárið blásið. Fara síðan aftur út í frostið, tilbúin að taka þátt í því sem dagurinn ber í skauti sér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný