Smásögur / Ljóð
sunnudagur, 21. febrúar 2010
Andleysi leiðir af sér bloggleysi
Valur heldur sínu striki og gerir flest af því sem þarf að gera á heimiliinu, s.s. að elda matinn og fara í Bónus. Ég sé nú reyndar að mestu um tiltekt og þvottinn, þannig að eitthvað smá gagn er að mér. Valur er búinn að moka út úr kjallaranum en svo urðu smá tafir á framkvæmdum því annar smiðurinn seldi húsið sitt og þurfti að flytja með öllu sem því fylgir. Þannig að ekki er byrjað á neinni smíðavinnu.
Hrefna er á sínum stað í Köben og gengur ljómandi vel í náminu, eins og hennar er von og vísa.
Andri var í Reykjavík, í starfs- og háskólakynningu. Þetta er ferð sem allir fjórðubekkingar í MA fara og stóð hún frá miðvikudegi til laugardags. Þeir ætluðu nú reyndar að koma heim í dag sunnudag en hann birtist hér í gærkvöldi, og ekki verra að hafa sunnudaginn heima. Í Reykjavík gisti hann hjá Guðjóni bróður Vals og þau hugsuðu vel um drenginn. Meðal annars fékk hann afmælismáltíð á föstudagskvöldið og ömmu hans og afa var boðið líka. Amman var nú reyndar hálf lasin og treysti sér ekki.
Ísak hefur verið í veikinda- og vetrarfríi alla vikuna. Síðasta sunnudag var hann orðinn veikur og er rétt að ná sér núna. Þannig að það var eins gott að við vorum ekki búin að skipuleggja ferð suður í vetrarfríinu eins og til stóð í fyrstu. Tölvan hefur veirð hans aðal félagi þennan tíma og verður að segjast eins og er að foreldrunum stendur ekki alveg á sama um allan þennan tölvutíma. Þó virðist vera ótrúlega erfitt að finna uppá einhverju öðru fyrir hann að gera. Sérstaklega þegar hann er jú veikur og kemst ekki í ræktina.
Úti er aftur farið að snjóa og kyngir niður í augnablikinu. Það er sólarlaust og mikil snjóblinda þannig að Valur treystir sér ekki á skíði. Markmið dagsins hjá mér er að taka til í herberginu mínu og fara í ræktina seinni partinn. Jú og fara í Rúmfatalagerinn að kaupa tvær tágakörfur til að setja í nýja skenkinn sem kominn er á ganginn hjá okkur.
miðvikudagur, 17. febrúar 2010
Andri 20 ára í dag
sunnudagur, 14. febrúar 2010
Uppskrift handa Hrefnu - ef hún vill...
Tortellini með ostasósu
1 pk. Tortellini
4 dl. matreiðslurjómi
2 egg
1 fínsaxaður púrrulaukur
1 askja skinkuostur
100 gr. skinka, skorin í strimla
100 gr. rifinn ostur
Salt og pipar.
50 gr. ostur ofan á
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum og látið renna vel af því. Þeytið 1 dl. rjóma saman við eggin. Hitið restina af rjómanum í potti og setið púrrulauk, skinkuost, skinku og rifna ostinn saman við. Bræðið ostinn við hægan hita og hrærið í á meðan. Takið pottinn til hliðar og kælið ostasósuna aðeins áður en rjóma/eggjablandan er hrærð saman við. Bragðbætið með salti og pipar. Leggið soðna pastað í eldfast form og hellið ostasósunni yfir. Stráið osti yfir og hitið í ofni við 225 gráður í ca. 20 mínútur.
Kominn sunnudagur
Við Sunna fórum t.d. á fund í Félagi kvenna í atvinnurekstri á föstudagskvöldið síðasta. Þar var Kári Eyþórsson að tala um mikilvægi hugarfarsins og margt íhugunarvert sem kom fram hjá honum, þó framsetning efnisins væri kannski heldur ómarkviss. Vissulega er það mikilvægt að horfa fram á við og hugsa í lausnum en í stað þess að dvelja í fortíðinni og aðhafast ekkert. Mikilvægt að setja sér markmið og hafa til einhvers að hlakka, í stað þess að hjakka bara í sama farinu. Ég hef ekki verið dugleg að setja mér markmið í gegnum tíðina. Að minnsta kosti ekki formlega, það hafa meira verið óljósar hugmyndir í höfðinu á mér, sem ýmist hafa verið framkvæmdar eða ekki. En ég mætti vissulega vera duglegri að skipuleggja smærri sem stærri atburði í daglega lífinu, svo ég hafi oftar til einhvers að hlakka. Það kemur yfirleitt í törnum hjá mér. Inn á milli gerist svo ekki neitt og manni hálf leiðist bara en hefur samt ekki dug í sér til að rífa sig uppúr þessu volæðisástandi. Jamm.
Nú, svo talaði hann í framhjáhlaupi um þreytu og vildi meina að hún væri að stærstum hluta andleg. Og ekki nóg með það heldur að það væri ótti sem lægi þar að baki. Hann nefndi ekki við hvað sá ótti væri eða hvernig ætti að vinna úr þeim ótta, og kom reyndar ekki meira inná þetta málefni. En þar sem óeðlileg þreyta hefur verið minn fylgifiskur í mörg ár, þá er ég nú eiginlega svolítið forvitin um þetta efni. Reyndi að leita að einhverju því tengdu á netinu en fann ekkert að gagni.
En nú ætla ég að hætta þessu rausi og reyna að bjarga andlitinu fyrir daginn í dag (gerði nefnilega ekki handtak í allan gærdag) og fara í smá húsmóðurleik.
þriðjudagur, 9. febrúar 2010
Stolin mynd frá Val
Þetta er úti á Gáseyri en þangað fórum við á laugardaginn, þrátt fyrir slappleika frúarinnar, sem var töluverður þennan dag. Ég hélt að ég myndi kannski hressast við að vera úti í súrefninu en það virkaði ekki í þetta skiptið. Samt alltaf gott að vera úti.
Á sunnudagsmorguninn hittumst við gömlu skátasysturnar í annað sinn í vetur. Í þetta skiptið náði Rósa sem betur fer að vera með okkur, enda var hennar sárt saknað síðast þegar hún var veðurteppt í höfuðborginni. Við vorum hér heima hjá mér og hver og ein tók með eitthvað smávegis á morgunverðar/hádegisverðarborðið.
Að öðru leyti er lítið að frétta. Ég hef verið löt að fara í sund á morgnana það sem af er ári og eftir því hefur verið tekið. En ég hef aðeins farið í ræktina í staðinn. Það er ágætt að breyta aðeins til.
Jú eitt er að frétta. Ég er komin með forláta rafmagns-hitateppi í rúmið mitt, nokkuð sem er algjör lúxus, svo ekki sé meira sagt. Hitapokinn sem ég hef verið með til fóta lagði upp laupana og þegar ég fór á stúfana til að kaupa nýjan poka, sá ég að hægt var að kaupa heilt teppi fyrir tvöfalda þá upphæð sem nýr poki kostaði. Þannig að ég skellti mér á teppið, því mér er jú ekki bara kalt á tánum þegar ég fer í háttinn. Við höfum gluggann yfirleitt opinn og það þýðir bara eitt þegar það er frost úti. Að rúmið verður ískalt. Og þar sem mér er nú yfirleitt alltaf kalt þá er ekkert sérlega notalegt að fara uppí ískalt rúm. En það verður nú ekki aldeilis vandamál hér eftir :)
fimmtudagur, 4. febrúar 2010
Góður dagur í gær
Eftir að þeir voru komnir á sinn stað fór ég svo loks í bæinn. Þar keypti ég íþróttabol á 50% afslætti og fór svo á kaffihús. Fékk mér kaffi og einhverja hollustu-smáköku og sat og fletti tímaritum í dágóða stund og bara naut þess að slappa af. Sá meðal annars uppskrift að súpu sem mér datt í hug að væri tilvalið að hafa í kvöldmatinn. Það hittist reyndar þannig á að uppskriftin var í bók eftir Rósu Guðbjartsdóttur og höfðum við verið að spá í að kaupa þá bók þar sem hún er núna á helmings afslætti, sem ég og gerði. Fór svo í aðeins fleiri búðir en var orðin lúin og dreif mig fljótt heim. Það er að segja, ég ætlaði heim en byrjaði á því að fara í Hrísalund og kaupa gúllas og ákveðið krydd í súpuna. Sótti svo Val í vinnuna og var þá loks komin heim, um hálf fimm leytið.
Þá hvíldi ég mig aðeins en fór svo fljótlega að elda því súpan átti að sjóða í klukkutíma. Þegar hún var komin vel á vel og mallaði ljúflega í pottinum datt mér í hug að baka líka brauð. Fór í tölvuna og fann uppskrift að speltbrauði sem afar fljótlegt er að henda í form og þarf ekkert að lyfta sér. Þannig að ég var nú bara nokkuð dugleg fannst mér. Og það sem var enn betra, allir borðuðu af bestu lyst.
Eftir kvöldmat slappaði ég nú bara aðeins af en náði þó að þvo eina þvottavél og hengja upp. Ætlaði svo snemma í háttinn en gat ekki sofnað, sennilega af því ég var orðin of þreytt. En jú jú, ætli ég hafi samt ekki verið sofnuð í kringum miðnættið þannig að þetta var nú ekkert til að tala um.
Í dag er ég svo eins og valtað hafi verið yfir mig. Sérstaklega eru það vöðvafestur hér og þar sem eru bólgnar og í kringum rass og mjaðmir er ástandið mjög slæmt. Á erfitt með að beygja mig niður (gruna ákveðna æfingu í ræktinni um að eiga sök á því) og hleyp nú ekkert áfram sko. En ég á ekki að mæta í vinnu fyrr en klukkan tvö, þannig að vonandi hef ég náð að safna mér eitthvað saman fyrir þann tíma :-)
miðvikudagur, 3. febrúar 2010
Dugleg stelpa
Ég fór í Þrekhöllina í morgun, það er nýi staðurinn við hliðina á sundlauginni. Mér finnst ósköp heimlislegt að ganga á hlaupabrettinu og horfa yfir sundlaugina. Svo er bjartara þar inni heldur en í Átaki, eða það finnst mér að minnsta kosti. Og fólkið er meira að spjalla saman, sem ég kann vel við. Mér fannst það galli í Átaki hvað allir voru voðalega alvarlegir eitthvað í æfingasalnum - en ég fór nú ekki oft og gæti bara hafa hitt þannig á. Ég er með kort sem gildir á báða staðina, þannig að ætli ég fari ekki bara til skiptis, eða eitthvað, það kemur bara í ljós.
Í dag er ég í fríi. Sem er lúxus, ég veit það, en annan hvern miðvikudag er ég í fríi og það er bara ósköp ljúft. Nú er bara spurningin í hvað ég á að nota þennan frítíma. Þarf nú reyndar að byrja á því að fá mér að borða og svo ætla ég að prjóna eitthvað. Spurning að kíkja líka á bókasafnið. Já og svo er það tiltektin endalausa og þvotturinn. Ætli væri ekki líka þjóðráð að reyna að hitta einhverjar vinkonur (í eintölu eða fleirtölu). Hafið það gott í dag.