Smásögur / Ljóð

föstudagur, 8. janúar 2010

Valkvíði

er nú yfirleitt ekki að hrella mig mikið. Tja, jú kannski stundum, fer eftir því hvert tilefnið er. Núna veit ég ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur þar til ég fer að vinna eftir rúma tvo tíma. En klukkan er rúmlega hálf tólf og ég hef ekkert gert í dag. Vaknaði hálf átta af mjög þungum svefni (hafði verið að dreyma einhverja vitleysu) og fór á fætur með Ísaki en þar sem ég átti ekki að fara að vinna strax lagði ég mig aftur. Svaf til að verða hálf ellefu og á þessum rúma klukkutíma hef ég afrekað svo mikið sem að fá mér að borða, lesa blöðin og hanga í tölvunni.

Ég var í smá stund að spá í að hlaupa út með myndavélina því himininn var svo fallega rauður, en það stóð í mér hvar ég myndi fá fallegt sjónarhorn og því fór ég ekki neitt. Þannig að nú stendur valið milli þess að fara í sturtu, fara að prjóna, taka úr uppþvottavélinni, setja í þvottavél - eða fara í ræktina. Annars lít ég svo illa út núna að ég get varla látið sjá mig á almannafæri, heheh. Það er nú verra ef ég þarf að fara í sturtu bara til að geta látið sjá mig í ræktinni.

Svo byrjaði ég loks á lopapeysunni hans Andra í gær og náði þeim glæsilega árangri að fitja upp og prjóna eina umferð. Ég hefði átt að stressa mig meira á að ná því að kaupa garnið fyrir jól... Ég ætlaði nefnilega að vera svo rosalega dugleg í jólafríinu. En það var ekki fyrr en Andri kom heim að ég fór að fitja upp. Var að hugsa um það í gærkvöldi þegar mér gekk illa að sofna (en sofnaði samt fyrir rest, án þess að fara fram) að ég hefði átt að nýta þessar andvökunætur um daginn í að prjóna, það hefði nú verið snjallt hjá mér. En á þeim tímapunkti datt mér ekkert slíkt í hug.

En já, ætli sé nú ekki best að hætta þessu hangsi og koma sér að verki :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný