Já eftir að hafa staðið upp á endann lungann úr gærdeginum við undirbúning konuklúbbsins og átt erfitt með að sofna í gærkvöldi þá er ég barasta drulluþreytt í dag (afsakið orðbragðið). Lét mig samt hafa það að fara í sund í morgun, já og klippa eiginmanninn, en þar fyrir utan er ég bara búin að lesa dagblöðin og hanga á netinu. Það eru svo sem engin aðkallandi verkefni í augnablikinu en ég hafði ætlað að kíkja aðeins á útsölur þar sem ég er í fríi í dag. Svo ætlaði ég að skoða blöð og tímarit í leit að hugmyndum. Það standa nefnilega fyrir dyrum herbergjaflutningar hér í húsinu (eina ferðina enn) og ætlum við að skipta um herbergi við Andra. Hann er í stærsta herberginu en notar það nánast aldrei, en það er frekar þröngt um okkur í hjónaherberginu og þegar aldurinn færist yfir (hehe) þá er þægilegra að hafa rýmra um sig. En það er enginn fataskápur í Andra herbergi og við þurfum að fá fataskáp, og svo langar mig að mála. Þannig að þá þarf aðeins að fara að pæla í því hvernig skáp við myndum vilja og hvaða lit við viljum hafa á veggjunum. Svo þyrfti reyndar líka að skipta um ofna alls staðar í svefnherbergisganginum, þeir eru bara ekki að virka eins og þeir eiga að gera og það er oft svo kalt í herbergjunum. Jæja, ég held að ég láti þetta gott heita í bili, ciao.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný