Ég fór í sund þrátt fyrir hvassviðri og komst að því að nýja sundlaugin var lokuð. Mikið af laufblöðum og rusli hafði fokið ofan í hana í nótt og stíflað rennur og niðurföll svo hitastýringin í lauginni klikkaði og hún var ísköld. Það var hægt að synda í gömlu lauginni og ég fór nokkrar ferðir en hún var líka ansi skítug. Svo fór ég í pottinn samkvæmt venju en að sjálfsögðu var hann líka fullur af laufblöðum og sandi þannig að upplifunin var ekki alveg sú sama og venjulega. Gufan var að vísu hrein - en ekki nógu heit, þannig að þetta var hálf misheppnað eitthvað. Kalda sturtan stóð reyndar alveg fyrir sínu, þannig að sá partur var í lagi. Á heimleiðinni sá ég starfsmenn bæjarins í óða önn að hreinsa upp brotin tré af götum og gangstéttum. Íbúum húss við Þingvallastræti hefur áreiðanlega brugðið í brún í nótt því stærðarinnar ösp hafði brotnað nánast niðri við rætur sínar og fallið á húsið. Ég sá nú ekki hvort rúður voru brotnar eða þvíumlíkt en það hefur greinilega gengið á ýmsu í nótt. Sem betur fer svaf ég sætum svefni því það er fátt sem ég þoli verr en hvassviðri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný