Smásögur / Ljóð

miðvikudagur, 10. september 2008

Byrjar ballið aftur

Eða öllu heldur, nú er komið haust og þá byrjar kvennaklúbburinn að hittast að nýju. Og enn er röðin komin að mér að halda klúbb - og enn er ég í vandræðum með það hvaða veitingar ég á að bjóða uppá. Það er auðvitað ekkert nýtt en nú vandast málið enn frekar því ég er í hveiti- og sykurátaki, þ.e. markmiðið er að hætta alfarið að borða hveiti og sykur og sjá hvort það hefur áhrif til hins betra á vefjagigtina. Þá er nú áskorunin að finna uppskriftir að bragðgóðu hollustufæði í klúbbinn. Ég var reyndar að fletta ýmsum uppskriftum eftir Sollu á Grænum kosti og þar má finna margt sem virðist vera gómsætt. Eiginlega svo margt að það er erfitt að velja. En sem sagt, föstudagurinn í síðustu viku var fyrsti sykur- og hveitilausi dagurinn og hef ég bara staðið mig eins og hetja (með undantekningu af smá ostakökusneið sem var í eftirrétt í matarboðinu á laugardagskvöldið). Er búin að fylla ávaxtaskálina og grænmetishólfin í ísskápnum og kaupa þurrkaðar apríkósur og fíkjur til að seðja sætindaþörfina. Ég reyndar fór í svona samskonar átak í fyrrahaust og það gekk ágætlega fram í nóvember. Um leið og við byrjuðum að vera með nammi í skál handa viðskiptavinum fyrir jólin sprakk ég á limminu og þegar ég var einu sinni sprungin þá var svo óskaplega erfitt að byrja aftur. Þannig að nú má ég bara ekki springa á limminu ;-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný