Í dag var besti dagurinn minn með bakið síðan allt fór í skrall á mánudaginn í síðustu viku. Ég er búin að fara þrisvar til hnykkjarans og í gær svaf ég til að verða hálf tíu, fór í sund og svo í svæðanudd og lagði mig þegar ég kom heim (algjör prinsessa). Vann bara í þrjá tíma og var alveg þolanleg. Vaknaði svo verkjalaus í morgun!! og var ekkert smá ánægð með það. Þó ég hafi verið með svona smá stingi í dag þá leið mér aldrei eins og það væri verið að bora með hníf í hrygginn á mér - og það er nú ástæða til að fagna því. Svo verð ég bara að halda áfram að passa mig næstu dagana á meðan ég er að ná mér betur. Halda áfram að vera prinsessa aðeins lengur ;-) Finn samt hvað það er rosalega erfitt, ég gleymi mér um leið og verkirnir eru ekki lengur til staðar og minna mig á að vera róleg.
Ég held áfram að pússla sumarfríinu okkar saman. Er komin með flug til Köben og heim, flug til Feneyja, gistingu í Toscana en á eftir að redda gistingu í Feneyjum, bílaleigubíl og flugi frá Pisa til Köben. Það er eitthvað smá vandamál með að fá beint flug frá Pisa á laugardegi en ég er nú ekki alveg hætt að leita. Við gætum hugsanlega flogið til Köben á sunnudeginum, sama dag og við fljúgum til Íslands, en það er kannski óþarfa áhætta að taka.
Svo kemur Anna systir annað kvöld og ætlar að vera á Akureyri á föstudaginn. Það verður voða gaman að fá hana í heimsókn enda ekki nema ca. einu sinni á ári sem við systur hittumst. Uss, þetta er náttúrulega ekki hægt...
Þetta er reyndar hálfgerð skyldmenna-vika hér í Vinaminni því Guðjón bróðir Vals og Óli Valur Guðjónsson eru hér í nótt en fara á morgun í veiði í Laxárdal. Valur skreppur svo á föstudaginn og bleytir færið.
Andri er loksins búinn í prófunum og Ísak er kominn í sumarfrí en kettirnir eru í eilífðarfríi - eða þannig. Þau eru enn einu sinni byrjuð á þeim leiðinda ósið að merkja húsið okkar. Þetta er þriðja sumarið sem þau gera þetta, eigendum sínum til mikils ama. Það þarf að passa að hafa læstar dyrnar inn í stofu og niður í kjallara og fylgjast vel með ákveðnum stöðum sem eru "heitari" en aðrir þegar að merkingum kemur. Þetta er líklega því að kenna að á sumrin koma allir kettir hverfisins í ljós (liggja meira og minna í hýði yfir veturinn) og spranga endalaust í kringum húsið okkar. Birta og Máni þurfa því að láta vita hvar þeirra yfirráðasvæði er og gera það á þennan miður skemmtilega máta. Það er reyndar hægt að kaupa sprey sem gefur frá sér róandi "lykt" (ferómóna) og spreyja á staði sem eru sérlega útsettir og ég þarf víst að drífa í því sem fyrst.
Og nú held ég að ég láti þessum pistli mínum lokið.
Smásögur / Ljóð
▼

Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný