Ísak kom heim frá Reykjum í dag eftir 5 daga fjarveru frá heimilinu. Það var skrýtið að hafa hann ekki heima. Fyrir utan þá staðreynd að hann var ekki til staðar í húsinu, þá var herbergið hans til dæmis hreint og strokið allan tímann, engin föt á gólfinu og engin Andrésblöð sem lágu eins og hráviði um allt hús. Það þurfti ekkert að keyra á fótboltaæfingar og síðast en ekki síst, þá hringdi síminn varla og dyrabjallan þagði þunnu hljóði. En það er nú ósköp gott að vera búin að fá strákinn sinn heim aftur - með öllu sem honum fylgir :-)
Hrefna og Erlingur eru flutt í nýju íbúðina sína í Köben og við hér heima segjum bara til hamingju með það!
Andri tók sig til ásamt nokkrum félögum sínum og var með dansatriði á kvennakvöldi í Menntaskólanum á fimmtudagskvöldið. Það er nokkuð ljóst að hann er ekki eins feiminn og mamma hans var á þessum aldri - sem er hið besta mál ;-)
Ég er enn á lífi... eins og ljóst má vera. Það er fullt að gerast í sambandi við flutning Potta og prika á Glerártorg og ótrúlega erfitt að ákveða sumt s.s. hvert bilið á að vera milli hillanna í búðinni, hvaða gólfefni á að vera o.s.frv. Þrátt fyrir fagran ásetning um að láta þetta allt saman ekki stressa mig upp, þá tekst það nú ekki alveg. Streita hefur ekki góð áhrif á blessaða vefjagigtina og ég sé að ég þarf eitthvað að fara að gera í málinu svo ég klári mig ekki alveg á þessu.
Þetta var "rapport" úr Vinaminni, föstudaginn 29. febrúar 2008.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný