Já, það þarf víst ekki mikla glöggskyggni til að sjá að ég er ekki í miklu bloggstuði þessa dagana. Andinn einhvern veginn ekki yfir mér. Þannig að þetta verður bara svona í punktaformi:
- Við Valur og Ísak skárum út + bökuðum laufabrauð ásamt Sunnu, Kidda og börnum á föstudagseftirmiðdag, og gekk það bæði hratt og vel fyrir sig. Á sama tíma var Andri að skemmta sér á árshátíð MA.
- Svo hjálpuðumst við Valur að við að þvo glugga í eldhúsi og stofu á laugardaginn og hengdum upp jólagardínur og jólaljós í gluggana í stofunni. Mér leið strax betur að því loknu og fannst ég ekki jafn léleg húsmóðir og áður.
- Það hefur verið nóg að gera í vinnunni að undanförnu og greinilegt að fleiri leggja leið sína í Potta og prik heldur en fyrir ári síðan, sem er afar jákvætt og skemmtilegt.
- Leiðinda kvefpesti hefur verið að angra heimilisfólk hér undanfarið, fyrst var ég veik, svo Valur og loks Andri. Svo hafa magaverkir verið að herja á karlpeninginn en ég hef sloppið við þá, sem betur fer.
- Kettirnir hafa sloppið við veikindi og sofa stóran hluta sólarhringsins, eins og þeirra er vani á þessum árstíma.
- Ég er að reyna að bæta þolið með því að synda spretti í morgunsundinu, með þeim árangri að tveir karlmenn hafa talað um það að þeir vildu ekki etja kappi við mig í lauginni (hehe) því ég fari svo hratt... Ég segi þeim að ég sé bara svona hraðskreið með blöðkurnar en finnst hólið ekki slæmt ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný