Smásögur / Ljóð

mánudagur, 19. febrúar 2007

Ísak áfram veikur og Andri tognaður á ökkla

Já, fjörið heldur áfram. Ísak hefur verið með yfir 40 stiga hita í rúman sólarhring núna og hefur mestmegnis sofið. Eins og staðan er í dag lítur ekki út fyrir að hann komist í bæinn að syngja á öskudaginn (það liggur við að mér finnist það vera mér að kenna af því ég var að fjargviðrast svona mikið út af búningamálunum).

Svo fór Andri í leikfimi í hádeginu í dag og var svo óheppinn að togna á ökkla og getur varla stigið í fótinn. Þannig að hann lá heima eftir hádegið og safnaði fjarvistarstigum (ég er pínu fúl út í þetta mætingakerfi í MA, krakkarnir fá fjarvistir fyrir veikindi, ekki tekið við læknisvottorði nema þau séu veik í þrjá daga eða meira).

Vangaveltur varðandi sumarfríið farnar að láta á sér kræla. Mig dauðlangar eitthvert til útlanda með fjölskyldunni. Í sól og sumaryl. Hefði helst viljað fara um páskana en 1) Valur á að vera á vakt um páskana 2) Andri á að keppa í handbolta 31. mars 3) Flestar ferðir lenda þannig á dögunum að Andri myndi missa tvo til þrjá daga úr skóla og þar með fá fjarvistarstig 4) þar fyrir utan er alltof seint í rassinn gripið að panta núna. Þannig að valið stendur á milli þess að fara seinni partinn í júní eða í byrjun september. Ef við færum í júní gæti Andri ekki byrjað að vinna fyrr en í júlí og spurning hvort einhver vill ráða hann í vinnu svona seint. Í september er Ísak byrjaður í skólanum en þar sem hann er enn í grunnskóla þá er hægt að fá leyfi fyrir hann. Mér finnst bara svo langt að bíða fram í september...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný