Ég fór að kaupa kattamat í dag, sem er kannski ekki í frásögur færandi út af fyrir sig. En ég þarf alltaf að kaupa "alvöru" mat handa þeim þ.e. ekki þýðir að kaupa það sem fæst í matvöruverslunum s.s. Kitekat því Máni fær niðurgang af svoleiðist mat og Birta fitnar. Í síðustu skipti hef ég keypt mat í Blómavali (reyndar í gæludýraverslun sem er inni í Blómavali og ég man ekki nafnið á í augnablikinu) en í dag nennti ég ekki þangað og ákvað að fara í búð sem er hérna rétt hjá og heitir Gæludýr og furðufiskar. Þar var 20% afsláttur af öllu sem tengdist hundum og köttum og ég keypti einn poka af mat og klórubretti (sem þau eru nú ekki ennþá búin að uppgötva tilganginn með). Á leiðinni í bílinn var mér litið á matarpokann og það rann allt í einu upp fyrir mér að hann var pínulítill og myndi nú ekki endast lengi. Það sem ég hugsaði var: "Þetta er ekki einu sinni upp í nös á ketti" en um leið og ég hafði sleppt hugsuninni gat ég ekki annnað en hlegið að því hvað þetta orðtak átti vel við í þetta sinn. Kannski finnst engum öðrum en mér þetta fyndið en það er þá líka allt í lagi ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný