Smásögur / Ljóð

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

Saga úr heita pottinum

Sundlaugin á Akureyri er, sennilega eins og allar sundlaugar á landinu, mikið sótt af fastagestum. Einn hópur fastagesta hittist alltaf um áttaleytið á kvöldin í heita pottinum og ræðir landsins gagn og nauðsynjar. En fólk er ekki aðeins fastheldið á það hvenær það kemur í sundið, það notar líka alltaf sama skápinn (og verður jafnvel alveg miður sín ef hann er ekki laus) og - situr á sama stað í pottinum kvöld eftir kvöld, ár eftir ár. Einn fastagestanna hefur líklega þótt sækja fast rétt sinn til að sitja á sama stað í pottinum því einn daginn var búið að líma skilti á pottvegginn, yfir vatnsborðinu. Í skiltið var búið að grafa eftirfarandi áritun: "Hér hvílir X". Ekki fer sögum af viðbrögðum X við þessu en ef ég þekki hann rétt hefur honum ekki þótt þetta slæmt. Skiltið hékk síðan þarna í einhverja daga eða vikur og sennilega hefur ekki reynst auðvelt að ná því af.

En þetta átti nú eftir að koma sér vel fyrir X. Eitt kvöldið þegar hann kom í sund var heiti potturinn fullur af ferðamönnum frá fyrrum Austur-Þýskalandi og eina sætið sem var laust - var að sjálfsögðu sætið hans með skiltinu yfir. Þrátt fyrir tímann sem liðinn var frá falli múrsins virtist ennþá sitja í Þjóðverjunum óttablandin virðing við yfirvaldið. Þeir horfðu með lotningu á X þegar hann settist í sætið sitt, þetta hlaut jú að vera einhver afskaplega háttsettur maður úr því hann fékk frátekið sæti í heita pottinum!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný