Smásögur / Ljóð

sunnudagur, 2. janúar 2005

Það eru kostir og gallar við allt

Kosturinn við þann tíma þegar Andri átti ekki í samskiptum við aðra stráka nema gegnum tölvuna var sá að við foreldrarnir vissum alltaf hvar hann var. Ekkert kvöld- og næturgölt sem hélt vöku fyrir okkur. Gallinn var auðvitað sá að við höfðum áhyggjur af félagslegum þroska hans. Nú er hann hættur að vera svona mikið í tölvunni, sem er kostur, en er kominn í nýjan vinahóp með strákum sem eru flestir einu ári eldri en hann og við þekkjum ekki neitt. Gallinn er sá að hann er (annað slagið) farinn að fara út á kvöldin.

Ég veit ekki hvort það er ellimerki - en við Valur eigum afskaplega erfitt með að halda okkur vakandi eftir klukkan ellefu á kvöldin og verðum því að treysta á frásögn sonarins varðandi það hvenær hann kom heim. Eitthvað nefndi ég þetta vandamál við eina vinkonu mína og hún, eins og endranær, hafði lausn á reiðum höndum. Bara segja honum að vekja okkur þegar hann komi heim! Þetta ráð hafði vinkona hennar notað með góðum árangri - hins vegar fannst henni frekar fyndið að þegar dóttirin kom um miðjar nætur og bauð góða nótt þá gerði hún það alltaf á innsoginu....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný