Smásögur / Ljóð

mánudagur, 13. maí 2013

Ágætasta stúdentsafmæli að baki

Já helgin lukkaðist bara vel :) Ég vissi að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig að ætla að taka þátt í allri dagskránni, svo ég valdi bara úr. Hitti bekkinn minn á föstudagskvöldinu eftir að þær (það voru bara stelpur sem mættu) höfðu verið á Icelandair hotel. Við fórum út að borða saman og svo heim til Svanhildar á eftir. Það var gaman að heyra hvað allar eru að gera og virkilega gaman að hitta hópinn, enda höfum við ekki hist í 5 ár. Mætingin hefði alveg mátt vera aðeins betri en það er bara eins og það er.

Á laugardeginum var heimsókn í VMA og svo ratleikur - hjá þeim hinum - ég var heima að hvíla mig. Um kvöldið var síðan matur, söngur, skemmtiatriði, myndataka og dans í húsi Náttúrulækningafélagsins í Kjarnaskógi. Það gekk bara nokkuð vel hjá mér að þola hávaðann svona framan af og þetta var í alla staði afskaplega vel heppnað. Ég meira að segja dansaði í smá stund en um hálf tólf leytið var hins vegar úthaldið búið og ég var komin heim um miðnættið.

Gærdagurinn fór svo að langmestu leyti í hvíld en við Valur fórum samt einn rúnt fram í fjörð. Ókum lengri hringinn og tókum nokkrar myndir. Þessi hér er tekin við þjóðveginn, fyrir neðan Kristnes (þó Kristnes sjáist nú reyndar ekki á myndinni). Allt á kafi í vatni eins og sjá má.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný