Smásögur / Ljóð

föstudagur, 17. ágúst 2012

Smá lífsmark


Ég held ég sé að setja nýtt met í bloggleti - og það er kannski ekki neitt sem ég ætti að vera að státa mig af. En svona til að sýna að ég er enn á lífi þá kemur hér mynd sem ég tók í Lystigarðinum snemma í sumar. Vinkona mín átti fimmtugsafmæli nú í vikunni og þá vann ég þessa mynd aðeins í myndvinnsluforriti og sendi ég vinkonu minni með afmæliskveðjunni á facebook. Ég er bara nokkuð ánægð með þessa mynd, eða að minnsta kosti litina í henni. 

Ég er byrjuð að vinna aftur eftir 3ja vikna rólegheita-sumarfrí. Við vorum svo lánsöm að hafa gesti megnið af tímanum sem ég var í sumarfríi og mér fannst það voða notalegt. Áður en ég fór í sumarfrí komu reyndar Palli bróðir og Sanne kærastan hans. Síðan kom Hrefna frá Köben og hálfum mánuði síðar kom Egil kærastinn hennar. Síðust kom svo Anna systir og stoppaði hún í tæpa viku.

Annars er það helst í fréttum að Andri er að flytja að heiman nú um helgina. Úff það verður skrítið að vera bara þrjú eftir í húsinu og við eigum eftir að sakna hans. En þetta er víst gangur lífsins og bara ánægjulegt þegar börnin manns fara að standa á eigin fótum. Valur er búinn að leigja kerru og ætlar að aðstoða soninn við flutningana. Þeir feðgar stefna að því að keyra suður á sunnudaginn. Andri var í smá aðgerð á hné, þannig að hann má ekki reyna á fótinn og heppilegt að Valur er í sumarfríi og getur skutlast með honum.

Glöggir lesendur taka kannski eftir því að þessi pistill er skrifaður um miðja nótt... Það hefur loðað við mig í gegnum tíðina að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, og sérstaklega þegar mikið er um að vera. Þá fer kollurinn á mér á einhvern yfirsnúning og ég næ ekki að slaka á þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir í þá áttina. Núna er klukkan að verða þrjú og ég er búin að gera þrjár tilraunir til að fara inn í rúm að sofa. Eigum við ekki bara að segja að það takist í næstu tilraun ;o)

2 ummæli:

  1. Myndin er alveg hreint ofurflott!

    Og úff já skil vel að þetta verði viðbrigði þegar Andri verður farinn... er hann að fara í nám?
    Bið að heilsa honum :)

    bk Kristín

    SvaraEyða
  2. Já Andri er að fara í atvinnuflugmannsnám hjá Keili. Ég skila kveðju til hans :)

    SvaraEyða

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný