Já ég er bara búin að vera dugleg í dag þó ég segi sjálf frá. Meðal annars notaði ég tækifærið þegar Andri var farinn út á flugvöll og lagaði til í herberginu hans. Það var nú svo sem ekki flókið og fólst aðallega í því að tína upp föt sem lágu eins og hráviði hér og þar í herberginu. Flest þeirra fóru í þvott en sum þurfti nú bara að brjóta saman og setja ofan í skúffu. Og já, ég veit að ég á ekki að gera þetta fyrir hann - málið er bara að hann gerir þetta ekki sjálfur - og ég þoli ekki að horfa uppá draslið. Þoli það í ákveðinn tíma og spring svo á limminu.
Svo er tiltektin/breytingin á Ísaks herbergi alveg að verða búin, á bara eftir að sauma gardínurnar. Ætlaði eiginlega að gera það í dag en held að orkan sé búin í bili. Kannski ég detti í stuð í kvöld...
Valur trúir því þegar hann sér það að ég muni sauma þessar gardínur, hann er búinn að missa alla trú á mér sem saumakonu. Gæti haft eitthvað með það að gera að núorðið sést saumavélin ekki uppi við nema á nokkurra ára fresti. Það er af sem áður var þegar ég saumaði heilu dragtirnar á sjálfa mig og ýmsan annan fatnað á Hrefnu og Andra. Tja, það er nú víst ekki rétt að ég hafi saumað mikið á Andra, en eitthvað samt s.s. jólaföt og öskudagsbúninga. Held að ég hafi ekki saumað eina einustu flík á Ísak hins vegar. Jamm og jæja, er hætt þessu rausi og farin í Hagkaup.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný