Smásögur / Ljóð

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Áfram nóg að gera - og enginn tími til að blogga né lesa blogg

Sem sést best á því að ég var fyrst núna að taka eftir öllum athugasemdunum við færsluna mína síðan á laugardaginn. En við fórum sem sagt í glæsilega afmælisveislu hér fyrir handan (í Vaðlaheiði) á laugardagskvöldið og Valur fékk þá tækifæri til að klæðast lopapeysunni sinni góðu sem móðir hans lét prjóna á hann fyrir margt löngu. Í veislunni hittum við margt fólk eins og vera ber og borðuðum góðan mat. Sunnudagurinn fór að mestu í afslöppun og dagarnir síðan (og kvöldin) hafa að mestu farið í vinnu. Þó afrekaði ég að fara á "skátafund" í gærkvöldi en við hittumst nokkrar gamlar skátasystur í tilefni landsmóts skáta sem haldið er að Hömrum þessa dagana. Já, og í tilefni þess að Rósa vinkona mín var stödd fyrir norðan. Hún gistir reyndar hér í kjallaranum en er hálfgerður "laumugestur" því hún hefur eigin lykil og kemur og fer eins og hentar. Í þokkabót er hún læst niðri í kjallara... en það er nú tilkomið vegna kattanna. Það þarf að læsa hurðinni niður svo Máni geti ekki opnað og þau farið niður. Við erum nefnilega hætt að leyfa þeim að vera í kjallaranum því þeim gæti dottið í hug að merkja sér svæðið.
Talandi um gesti þá streyma þeir hingað í Vinaminni þessa síðustu daga fyrir brottför okkar í sumarfríið. Í kvöld kemur maður sem er að fara að veiða með Vali næstu daga, já og sonur mannsins líka og þeir ætla að gista í nótt. Í fyrramálið koma svo Edda mágkona Vals og Óli Valur sonur hennar - þau eru líka að fara að veiða með Vali. Svo koma þau aftur á laugardagskvöldið og gista þá aðfaranótt sunnudags. Á laugardaginn koma líka mamma og Ásgrímur en þau ætla að vera hér og gæta bús og katta á meðan við erum að skemmta okkur í útlandinu. Já það er annað hvort í ökkla eða eyra... ;-) Og nú er best að hætta þessu blaðri og fara að gera klárt fyrir næturgestina. Svo bíður bókhaldið og "þarf að gera" listinn en á honum er m.a. að bóka hótel í Köben fyrir okkur Val en Andri og Ísak gista hjá systur sinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný