Já, Ísak og félagar í 5. flokki KA gerðu sér lítið fyrir og komust áfram á Íslandsmótinu og keppa því við FH um Íslandsmeistaratitilinn í Reykjavík um næstu helgi. Það er aðeins einn galli á gjöf Njarðar, fyrirliðinn sjálfur er að fara til Barcelona með foreldrum sínum og því lítur allt út fyrir að hann geti ekki keppt úrslitaleikinn. Fyrst átti leikurinn að fara fram á fimmtudegi en var frestað til helgarinnar en nákvæmur leiktími er enn ekki á hreinu.
En hvernig sem úrslitin verða þá eru strákarnir þegar sigurvegarar í mínum huga því þeir unnu Völsung í gær (sem þeir höfðu áður tapað fyrir) og í dag kepptu þeir við Fylki (sem þeir töpuðu fyrir 1-5 á föstudaginn) og börðust eins og ljón allan tímann og voru ráðandi aðilinn í leiknum sem endaði með jafntefli. Það var mikil gleði ríkjandi á KA vellinum þegar ljóst var að strákarnir voru komnir í úrslit, kátir strákar og stoltir foreldrar sem samglöddust afkvæmunum. Þjálfararnir sjá nú fram á að þurfa að snoða sig - höfðu víst heitið því ef svona færi ;-)
En það er svo merkilegt með það að þegar við pöntuðum ferðina út héldum við að hún myndi ekki rekast á neitt nema skólann hjá Ísak en eins og staðan er núna þá missir Andri af æfingabúðum á Selfossi í handboltanum og Ísak missir hugsanlega af því að leika með liðinu sínu. Nú er bara að vona að æfingabúðunum verði frestað og fótboltaleikurinn verði snemma á laugardeginum (flugið til Barcelona fer kl. 16.40) ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný