Ísak á afmæli í dag og er orðinn 12 ára. Á hraðri leið með að verða fullorðinn (eða það finnst mér). Formleg afmælisveisla verður haldin á föstudaginn en svo fékk hann að velja um það hvort haldið yrði fjölskyldu-afmæliskaffi hér heima í dag eða við færum út að borða á Greifann. Það kemur engum á óvart sem til þekkir að hann valdi Greifann. Ég er að vinna til sex í dag og sagði að við skyldum bara fara um leið og ég væri búin að vinna. Andri var ekki viðstaddur þegar þetta var rætt en þegar hann var á leið í skólann í morgun mundi ég allt í einu eftir að segja honum frá þessu. Þá kom í ljós að mamma gleymna hafði gleymt því að sonurinn er á handboltaæfingu klukkan sjö. Og þar með var allt skipulag komið í uppnám og ég var hálf miður mín yfir því. Ég kvaddi Andra og ætlaði sjálf að drífa mig í sund. Fór inn í bílskúr og bakkaði út en var svo hugsi yfir þessu öllu að ég hlýt að hafa gleymt að fylgjast með umferðinni þegar ég bakkaði út á götuna. Að minnsta kosti sá ég ekki manninn sem var að bera út Fréttablaðið (þann sama og gekk einu sinni beint út á götuna í veg fyrir mig þannig að ég þurfti að snarstoppa) og var nærri búin að bakka á hann. Fór svona rétt framhjá honum og fékk vægt áfall þegar ég kom auga á hann þarna við hliðina á bílnum. Sem betur fer slapp ég með skrekkinn í þetta sinn. Alla vega, enginn meiddist og Sunna ætlar að bjarga mér með síðasta hálftímann í vinnunni þannig að við getum farið út að borða klukkan hálf sex og allir geta verið glaðir. Ja, nema Hrefna sem er í Köben og missir af út-að-borða ferð með fjölskyldunni. En við förum bara saman út að borða mæðgurnar þegar ég fer til hennar um páskana :-)
Hér á heimasíðu Goðamótsins má sjá afmælisbarnið á fullri ferð í einum af mörgum fótboltaleikjum liðinnar helgi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný