Já, gamla því mér líður eins og gamalmenni, öll ómöguleg í skrokknum. Hnéð er ennþá að láta vita af sér, t.d. var ég ómöguleg í hnénu eftir skíðaferðina um helgina. Þegar ég var að skíða niður brekkurnar fann ég samt ótrúlega lítið fyrir því. Fann í staðinn eitthvað til í bakinu en var ekkert að æsa mig yfir því. Svo vaknaði ég í morgun og fann að ég var eitthvað skrýtin í bakinu en dreif mig í sund og ætlaði að hrista þetta af mér. Datt svo í hug að taka eina flugsundsferð... og í fyrsta sundtaki fann ég eins konar smell í mjöðminni/bakinu og viti menn, ég er búin að vera að drepast úr verkjum í allan dag. Það er erfitt að beygja sig niður (klæða sig í sokka t.d.), erfitt að standa, erfitt að sitja og meira að segja erfitt að hósta.
Fyrir utan bilað bak og hné eru svo mínir venjulegu verkir í skrokknum, sem yrði hugsanlega greindir sem vefjagigt ef ég færi einhvern tima til læknis. Mér tekst reyndar að halda þeim verkjum nokkurn veginn í skefjum með því að synda en samt eru sum tímabil verri en önnur.
Já, já, ég veit, það er hundleiðinlegt að lesa svona kvörtunarblogg - og ef einhver heldur að ég sé að blogga um þetta til að láta vorkenna mér - ja, þá hefur sá hinn sami líklega alveg rétt fyrir sér...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný