Smásögur / Ljóð

miðvikudagur, 17. janúar 2007

Einmitt núna er Hrefna í fyrsta "alvöru" pófinu

sínu í dönskum háskóla. Sem minnir mig á það þegar ég tók fyrsta prófið mitt í norskum háskóla, í heimspekilegum forspjallsvísindum. Þá var ég í háskólanum í Bergen og þetta hafði verið hálf erfiður vetur. Hrefna var í fyrsta bekk í barnaskóla, Andri var sex mánaða þegar ég hóf námið og Valur var í framhaldsnámi við Haukeland sykehus. Í september dó pabbi og ég fór heim með Andra í jarðarförina, enda ennþá með hann á brjósti. Ég kunni takmarkaða norsku og skildi oft ekki stakt orð á fyrirlestrunum því kennararnir töluðu sumir hverjir svo "óskiljanlega" mállýsku (fannst mér þá). Norsk-íslenska orðabókin mín var mikið notuð þetta haustið en þrátt fyrir að reyna að lesa þegar því varð við komið, þá fannst mér ég ekki skilja neitt í námsefninu.

Það var ekki fyrr en ég fór að lesa á fullu fyrir prófið að þetta fór loks að smella saman. Kvöldið fyrir prófið las ég fram á nótt en gat svo með engu móti sofnað. Dottaði undir morgunn og vaknaði með þvílíkan streitu-magaverk. Reyndi að borða morgunmat en átti afar erfitt með að halda honum niðri. Prófið sjálft var haldið í risastórri íþróttahöll, sem ég held að sé stærsti prófstaður sem ég hef setið í fyrr og síðar. En einhvern veginn hafðist þetta nú allt og ég fékk alveg ágæta einkunn í blessaðri "fílunni".

Löngu síðar frétti ég að aðrir samlandar mínir höfðu tekið þennan áfanga á ensku (með hinum útlendingunum), því það var víst miklu léttara...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný