Ég fór í Bónus í dag. Passaði vel og vandlega að hafa með mér í bílinn gulu innkaupapokana sem ég keypti í þeirri sömu verslun á tvöhundruð kall stykkið (eða var það þrjúhundruð?) og rúma marga lítra af mjólk hver, auk annarra hluta. Mér finnst þessir pokar algjör snilld en áður en þeir fóru að fást í Bónus reyndi ég alltaf að taka kassa undir vörurnar. Eini gallinn við þetta allt saman er sá að mér tekst alltaf að gleyma pokunum í bílnum meðan ég fer og versla. Svo stend ég við kassann og byrja að setja vörurnar á bandið og þá fyrst man ég eftir pokunum í bílnum. Tvisvar sinnum hef ég verið með bílinn svo nálægt að ég hef getað hlaupið út og sótt þá á meðan kassadaman (eða drengurinn ef svo ber undir) klárar að renna vörunum í gegn, en í dag (og oftar) var bíllinn svo langt undan að það kom ekki til greina. Þannig að heim kom ég með þrjá plastpoka í hendi (engir kassar til í dag) og fínu innkaupasekkirnir lágu óhreyfðir í aftursæti bílsins. Þannig fór um sjóferð þá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný