Smásögur / Ljóð

þriðjudagur, 12. september 2006

Þegar ég kynntist manninum mínum

var hann sannkallaður skipulagsfíkill hvað snertir ákveðna hluti. Sem dæmi má nefna að þegar hann hafði sótt myndir í framköllun raðaði hann þeim samstundis í albúm og losnaði þannig við vandamál sem margir kannast við. (Vandamálið að sitja uppi með ótal myndabunka og vaxa það svo mikið í augum að raða þeim í albúm að fólk sleppir því frekar). Bræður hans áttu það til að gera grín að honum fyrir þessa skipulagsáráttu en ég held að þeir hafi nú bara öfundað hann ;-)
Nema hvað, ég fór fljótt í sama farið og það var aldrei nein óregla í myndasafninu hjá okkur - fyrr en stafræn myndavél kom á heimilið. Þá voru ekki framkallaðar myndir svo mánuðum/árum skipti og þegar það var loks gert voru framkallaðar nokkur hundruð myndir. Við fengum bara þrjá risastóra bunka í hendurnar og mér féllust hendur þegar að því kom að raða í albúm. Er búin að geyma allt heila klabbið ofan í skúffu í rúmt ár og hef aldrei komið mér að því að raða þeim. Ætlaði svo að byrja núna í kvöld - en aftur féllust mér hendur. Þurfti að sækja tölvuna til að geta sorterað og raðað nokkurn veginn í rétta tímaröð og þegar það var búið nennti ég ekki meiru. Þannig að blessaðar myndirnar eru ekki enn komnar í albúm - og heilt ár sem á eftir að framkalla og raða í albúm... Já, tæknin er til framfara á ýmsum sviðum en ekki öðrum!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný