Smásögur / Ljóð

sunnudagur, 23. október 2005

Ég var með

kvennaklúbb á föstudaginn og aldrei þessu vant þá gekk undirbúningurinn svona líka ljómandi vel. Eftir að hafa flett blöðum og bókum í leit að einhverju fljótlegu (ég nenni aldrei að eyða einhverjum rosa tíma í eitthvað dúllerí) fann ég þrjár uppskriftir hver annari fljótlegri og ólíkari. Fyrst bjó ég til súkkulaðiköku með súkkulaðirjóma, svo spínat-ríkotta píramída (sem var í klúbbablaði Gestgjafans) og loks crostini með fíkjum og gráðosti. Mér tókst reyndar næstum því að kveikja í því síðastnefnda en það átti nefnilega að byrja á því að skera eina baguette (stóð svona í uppskrifitinni, það sér hver heilvita maður að baguette er miklu fínna orð heldur en snittubrauð...) í sneiðar og grilla báðum megin áður en lengra væri haldið. Ég skar brauðið samviksusamlega í sneiðar, setti inn í ofninn... og steingleymdi því... a.m.k. í smá stund. Það voru sem betur fer bara kantarnir sem voru brunnir og auðveldlega hægt að skafa brunarákina í burtu. Ég er snillingur í eldhúsinu, það verður ekki af mér skafið. En svo ég klári nú bara uppskriftina að þessum rétti, þá á næst að smyrja smurgráðaosti ofan á sneiðarnar, þá skera ferskar fíkjur í litla báta og setja ofaná, og loks að bræða saman hálfan dl. púðursykur og hálfan dl. balsamedik og hellla ofan á fíkjurnar. Þetta vakti þvílíka lukku hjá dömunum að ég naut þess í smástund að finnast ég bara ágætis kokkur ;O) En til að lesendur þessa pistils skilji af hverju það er ánægjuefni hjá mér þá læt ég hér fylgja að lokum eina setningu sem heyrðist þegar liðið var á klúbbinn og maðurinn minn var kominn heim. Ég hafði farið fram í eldhús til að tala við hann og ákvað að nota tækifærið og fylla á crostini diskinn og þegar ég kom aftur inn í stofu gellur í einni "ertu svo bara með manninn í eldhúsinu - er hann kannski búinn að gera þetta allt?"

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný