Smásögur / Ljóð

mánudagur, 25. apríl 2005

Náði þeim áfanga í morgun

að geta synt skriðsund án þess að vera alveg að drepast eftir tvær ferðir. Galdurinn? Að synda hægar... Ég var alltaf í þriðja gír og gat bara einhvern veginn ekki synt hægar en svo allt í einu í morgun small þetta. Nú þarf ég bara að endurnýja sundgleraugun mín og fá mér blöðkur á fæturnar og þá er ég til í skriðsunds-slaginn. Þvílík forréttindi sem það eru að byrja daginn á því að synda í útisundlaug í glampandi sól og blíðu.

Helgin leið hjá í miklum rólegheitum. Valur vann í garðinum en ég gerði mest lítið. Ég var reyndar með kvennaklúbb á föstudaginn og tókst að klambra saman kökum/heitum rétti án stórslysa í eldhúsinu. Fann svona þrælfína (imbahelda) uppskrift að súkkulaðiköku í Nýju lífi og féll hún aldeilis í kramið hjá klúbbsystrum.

Á laugardagskvöldið áttum við miða í leikhúsið að sjá "Pakkið á móti" en vorum hvorugt í rétta gírnum fyrir leikhúsferð svo við breyttum um áætlun og fórum í bíó í staðinn. Sáum "The Interpreter" með Nicole Kidman og Sean Penn. Myndin var alveg ágæt en enn og aftur undrast maður að það skuli yfir höfuð vera hægt að halda uppi kvikmyndahúsi á Akureyri, hvað þá tveimur!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný