höfum við verið í gær og í dag. Ef mælt væri hver hefði gert mest þá kæmi reyndar í ljós að Valur hefur verið ennþá duglegri en ég - en það er nú ekkert nýtt. Forsaga málsins er sú að eftir breytingar í kjallaranum síðasta sumar þá hafa bækur heimilisins verið á hrakhólum og löngu orðið tímabært að koma þeim fyrir á nýjum stað. Þannig að ég pantaði þrjá Billy bókaskápa úr Ikea og auk þess fengu þrjár kommóður að fljóta með. Ein fór inn í Ísaks herbergi og hýsir þar alls konar dót, ein fór inn í hjónaherbergið og hýsir föt af sjálfri mér og sú þriðja fór í sjónvarpsherbergið þar sem hún hýsir nú tölvuleiki, vídeóspólur og dvd-diska. Bókaskáparnir eru komnir á ganginn í kjallaranum og á bara eftir að raða í þá. Þegar það verður búið ætla ég að ráðast á geymsluna undir stiganum næst!
Annars er bara allt í góðum gír. Ég fór í sund bæði í dag og í gær og synti 14 ferðir báða dagana. Það gerir að vísu ekki nema 300 metra en ég synti rösklega og bætti flugsundi við (reyndar ekki nema hálfri ferð....). Í morgun hitti ég gamla skólasystur í lauginni, hana Rún Halldórs sem núna býr á Akranesi. Kosturinn við páska er sá að þá flykkjast gamlir Akureyringar í bæinn og maður hittir fólk sem maður hittir ekki öllu jafna. En til þess að svo megi vera þarf reyndar að fara út úr húsi, í sund, í fjallið (þegar það er snjór þar..), á öldurhúsin o.s.frv.
Andri og vinur hans voru að skreiðast á lappir eftir að hafa eytt nóttinni í tölvuleiki - ég skil ekki alveg þetta dæmi að þurfa endilega að vaka megnið af nóttinni til að spila tölvuleiki. Það er, af hverju má ekki alveg eins sofa á nóttunni og leika sér á daginn - en það er nú svo margt sem ég skil ekki ;-)
Valur (öðru nafni Halur) situr hins vegar gegnt mér, með tölvu í kjöltunni og nú er það stóra spurningin, er hann að blogga?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný