Smásögur / Ljóð

sunnudagur, 24. október 2004

Það er alltaf gaman

að fylgjast með mannlífinu og eitt af því skemmtilegra við að koma á nýja staði. Til dæmis í París um daginn þá hefði ég getað setið heilan dag og bara horft á fólkið í kringum mig. Svo ótrúlega margar og ólíkar týpur. Ég meira að segja öfundaði safnverðina í Pompidou safninu sem sitja á stólum víðsvegar um safnið og gæta þess að allt fari nú "siðsamlega" fram. Þvílíkur fjöldi af fólki sem þeir sjá á hverjum degi og frá ótal löndum.

Einn staður svíkur þó aldrei hvað fjölbreytt mannlíf snertir og það er sundlaugin. Að vísu er fátt um t.d. Kínverja eða Afríkubúa í lauginni, hvað þá yfir vetrartímann, en engu að síður þá er hægt að hafa afar gaman af því að virða fyrir sér sundlaugargestina. Að sitja í heita pottinum snemma á morgnana og hlusta á samræður gamla fólksins er alveg sér kapítuli. Um daginn varð ég t.d. vitni að eftirfarandi samræðum: Ein gömul kona við aðra: "Það er nú meira hvað það er heitt úti, bara alveg dásamlegt". Hin: "Já og veistu hvað, það var svona hlýtt í alla nótt". Ein: "Hvað segirðu manneskja, svafstu ekkert í nótt? Þú hefur kannski bara vakað alla nóttina til að fylgjast með hitamælinum?" Hin: "Nei, ertu alveg frá þér, en mér fannst þetta svo merkilegt að ég leit á mælinn í hvert skipti sem ég vaknaði til að fara á klósettið, til að sjá hvort það hefði ekki kólnað".

Ókey, ég er kannski ein um að finnast þetta fyndið en þess ber að geta að tónninn í röddinni og svipbrigði þeirra gömlu skila sér ekki svo vel á prenti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný