Smásögur / Ljóð

fimmtudagur, 9. september 2004

Trúi engu í DV

Stundum er ótrúlega gaman að hlutsta á annað fólk rabba saman. Vera bara áheyrandi án þess að taka þátt í samræðunum. Ég var í leikfimi í morgun og eins og alltaf fór ég að teygja á eftir. Dýnurnar eru í sama sal og upphitunarhjólin en þar er líka sjónvarp. Eldri kona og yngri maður voru að hjóla og höfðu lítið talað saman þegar farið var að fjalla um breytingarnar á Ruth Reginalds í Íslandi í býtið. Meðal annars voru sýndar myndir af Ruth í líkamsrækt. Nema hvað, þá fer sú gamla að tala um það hvað sé nú strax orðinn mikill munur á henni Ruth en sá yngri var greinilega ekki alveg tilbúinn að skrifa undir það. "Já, finnst þér það?" spurði hann með ískaldri kurteisi en tónninn í röddinni ljóstraði því upp að hann var greinilega ekki hrifinn af þessu Ruthar-dæmi. Gamla tók ekkert eftir því en hélt áfram að mala og vitnaði í DV máli sínu til stuðnings. Þá sagði hann "Ég trúi engu sem kemur í DV, ekki einu sinni dagsetningunni". Þar með lauk þessum samræðum.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um Ruth og hennar "fegrunaraðgerðir" en hvað DV snertir þá gæti ég ekki verið meira sammála stráknum í ræktinni. Þetta er þvílíka sorablaðið og það hvarflar ekki að mér að kaupa það.

1 ummæli:

  1. Efast um að þeir kunni á dagatal; kannski á klukkuna, en skiptir ekki máli að vetri til, þar sem þeir sjá sennilega mun á nóttu og degi! Ekki á réttu og röngu.

    SvaraEyða

Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fólk gefur sér tíma til að skrifa mér nokkrar línur. Ef þú ert ekki skráður notandi (með Google account) hakaðu þá við "Nafnlaus" og skrifaðu bara nafnið þitt undir.
Bestu kveðjur,
Guðný