Smásögur / Ljóð
þriðjudagur, 31. október 2006
Samtal i heita pottinum
Svo spyr einn þeirra: "Hvernig ertu annars í hnénu Guðmundur?"
Guðmundur svarar: "Ég er allur að koma til, fer út að ganga á hverjum degi í Kjarnaskógi og það gerir mér voða gott."
Einn: "Já, en nú fer færið að verða slæmt í Kjarnaskógi, þá geturðu ekki lengur gengið þar."
Guðmundur: "Að vísu, en ég er nú líka að verða miklu betri."
Einn: "Annars fór ég nú út að ganga um helgina. Gekk hringinn hjá Kristnesi með konunni. Eða réttara sagt, hún dró mig á eftir sér. Það þyrfti nú barasta að hengja lóð aftan í rassinn á henni til að hægja á henni, það er ekki hemja hvað hún gengur hratt konan.
Sá þriðji: "Er það ekki bara þú sem gengur svona hægt góði?"
Einn (hefur greinilega tekið þessa athugasemd nærri sér) segir með þjósti: "Þegi þú nú bara, vertu ekkert að skipta þér af þessu!"
Sá þriðji þegir.
Einn (sér greinilega eftir því að hafa verið svona hranalegur): "Þetta hefur alveg snúist við hjá okkur. Fyrir tuttugu árum nennti ég aldrei að fara með henni út að ganga því hún komst varla úr sporunum. Nú er það hún sem flýgur áfram og þarf að dröslast með mig í eftirdragi." Ekki er ljóst við að greina megi sorg í röddinni yfir því að vera orðinn þetta lélegur en jafnframt örlar líka á stolti yfir því hvað konan er orðin spræk.
Þegar hér er komið sögu er konunni, sem hefur setið þegjandi og hlustað á þessi samskipti, orðið vel heitt og hún drífur sig uppúr pottinum. Karlarnir sitja áfram og ræða sín mál.
mánudagur, 30. október 2006
Erfitt að vakna þessa dagana ...
En nú þýðir ekkert annað en drífa sig fram. Klósettið næst á dagskrá og tannburstun. Mikið sem mig langar samt til að sofa lengur. Kveiki á útvarpinu og vona að í því sé eitthvað hressilegt lag sem hjálpi mér að vakna. Dreg andann djúpt og fer og ýti við yngri syninum. Hann sem áður spratt upp á morgnana eins stálfjöður er orðinn eins og klassískur unglingur (þó hann verði ekki 12 ára fyrr en í mars) og sefur núna eins og steinn þar til hann er vakinn. Fyrstu viðbrögð eru þau að snúa sér á hina hliðina og draga uppfyrir haus, vitandi það að hann fær að kúra aðeins lengur. Ég heyri engan umgang úr herbergi eldri sonarins og banka á hurðina en þá er hann vaknaður. Það er ótrúlega mikill munur síðan hann fór að vakna sjálfur, verð að segja það. Ég græja nestið fyrir þann yngri (sem hefur komist fram í eldhús en lítur út fyrir að vera ennþá hálf sofandi þar sem hannn situr við eldhúsborðið) og minni þann eldri á að taka með sér sitt nesti. Kveð þá bræður, gríp sundtöskuna og dríf mig í mitt hefðbundna morgunsund.
Þegar ég stend í sturtunni get ég varla hugsað mér að fara út í laug af því það er kalt úti og mig langar bara að vera áfram undir heita vatninu. En læt mig hafa það og og hálfhleyp þessa fáu metra að bakkanum. Kuldinn smýgur inn að beini en samt er ekki einu sinni kalt úti (hitastigið rétt við frostmark) en laugin er köld. Nenni ekki að synda allar 40 ferðirnar, læt 36 nægja í dag. Fer í pottinn og þaðan í gufuna. Get ekki hugsað mér að fara í kalda sturtu eftir að það byrjaði að kólna úti. Í sturtunni á ég erfitt með að horfa ekki á konu sem virðist þjást af lystarstoli á háu stigi, Vona hennar vegna að svo sé ekki. Skelli á mig hæfilegum skammti af snyrtivörum, blæs hárið og dríf mig heim.
Næ því að borða morgunmat í rólegheitum og lesa blöðin við ljósið af dagsbirtulampanum mínum áður en ég þarf að fara í vinnuna. Er full af orku eftir sundið og matinn og alveg búin að gleyma því hve erfitt var að vakna fyrr um morguninn.
sunnudagur, 29. október 2006
Er loksins byrjuð að
Venjulega er ferlið hjá mér þannig að ég byrja af miklum ákafa og næ jafnvel að klára megnið af flíkinni á afar skömmum tíma. Þá hins vegar gerist eitthvað sem ég kann ekki alveg að útskýra, en nánast undantekningarlaust kemur bakslag í seglin og ég legg prjónana til hliðar (á yfirleitt að vera tímabundið) og það geta liðið vikur, mánuðir eða ár þar til ég tek þá fram að nýju.
Fyrir nokkrum árum síðan kom prjónalöngun yfir mig og ég ætlaði að rjúka til og kaupa mér garn en datt í hug að kíkja fyrst í prjónakörfuna mína. Þar fann ég peysu sem var nánast fullkláruð, átti aðeins eftir að prjóna aðra ermina og sauma hana saman. Þar fann ég líka hálfkláraðan trefil, nærri fullkláraðan barnasamfesting sem ég byrjaði á þegar Andri var lítill og "norska" peysu sem átti að vera á Ísak (bara bokurinn búinn á henni). Ég tók peysuna upp og kláraði hana en hitt dótið liggur ennþá í körfunni. En bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er þessi árátta, að hætta við verkefni í miðju kafi, aðeins tengd prjónaskap og ég klára allt annað sem ég tek mér fyrir hendur! Eða það held ég að minnsta kosti...
Bæti því við hér að ósk eiginmannsins að mín bíða speltvöfflur í eldhúsinu, bakaðar af honum, og nú er ég farin að borða vöfflur með rjóma :-)
föstudagur, 27. október 2006
Mér leiðast rútínur
Þegar ég hef fylgt sama munstrinu í nokkurn tíma kemur yfirleitt að því að ég nenni því ekki lengur. Þarf smá tilbreytingu. Ég hef synt á hverjum morgni alla virka daga núna í haust og verið mjög ánægð með það. Svo í morgun nennti ég allt í einu ekki í sund. Langaði að gera eitthvað annað. Vissi þó ekki hvað það ætti að vera. Þannig að nú er klukkan orðin 8.34 og ég er ekki búin að gera neitt af viti ennþá. Byrjaði á því að lesa blöðin (eða hluta af öllu því blaðafargani sem kemur hér inn um lúguna á morgnana) og færði mig svo inn í tölvuherbergið og fór að lesa blogg. Íhugaði að leggja mig aftur því ég hef verið svo þreytt undanfarið en aldrei þessu vant þá fann ég að ég var of vel vakandi til þess að geta sofnað aftur. Það vantar svo sem ekki verkefnin, ég gæti t.d. skúrað eldhúsgólfið og farið með rusl upp í Endurvinnslu - en í augnablikinu nenni ég ekki að gera neitt svo viturlegt. Spurning að fara í bað, fara út að ganga, prenta út peysuuppskriftina af netinu (garnið kom með póstinum í gær), hafa samband við vinkonu mína - eða bara halda áfram að sitja eins og svefngengill fyrir framan tölvuna og lesa fleiri blogg... ?
sunnudagur, 22. október 2006
Finnst ég eiginlega þurfa að blogga
Nú styttist í að Pottar og prik fari að auglýsa en lógóið er loksins tilbúið! Það gekk nú hálf erfiðlega að velja litinn á það en hann er einhvers konar blanda af gráu, brúnu og grænu... Hm, hljómar kannski undarlega en ég held að hann verði fínn. Þannig að vonandi náum við að fá skilti framan á búðina og auglýsingu í Dagskrána á miðvikudag. Hér byggist allt á því að auglýsa í Dagskránni því milli 80 og 90% Akureyringa lesa þann miðil. Sem er ágætt, það einfaldar málið verulega. Okkur vantar ennþá nýtt afgreiðsluborð, nýjar innréttingar að hluta og nýja heimasíðu - en þolinmæði þrautir vinnur allar svo það er um að gera að temja sér dágóðan skammt af þeim eiginleika. Þolinmæði hefur reyndar ekki verið mín sterkasta hlið í gegnum árin en mér finnst ég nú hafa tekið stórstígum framförum hvað það snertir :-)
þriðjudagur, 17. október 2006
Það reyndist erfiðara en ég hélt
Það var ekki fyrr en mér datt í hug að fara á netið (já já hefði sjálfsagt átt að byrja á því, liggur í augum uppi) að ég fann peysuuppskrift sem mér líst á. Þær má finna í hundraðatali inni á Garnstudio.com og Anna systir var örugglega búin að segja mér frá því einhvern tímann en ég og mitt gullfiskaminni náðum ekki að muna eftir því. Alla vega, ég fann peysu og Anna er búin að lýsa sig reiðubúna að kaupa viðeigandi garn í Noregi þannig að nú er mér ekkert að vanbúnaði.
Í leit minni að prjónauppskriftum (sem byrjaði inni á síðu Vestanpóstsins) þá rakst ég á mörg skemmtileg prjónablogg og verða bara að segja: "Mikið ósköp sem margar konur eru duglegar!"
föstudagur, 13. október 2006
Tómstundir
miðvikudagur, 11. október 2006
Kostir og gallar
Þar sem ég byrja oft ekki að vinna fyrr en milli kl. 9 og 10 og stundum ekki fyrr en kl. 14 þá þarf ég ekki lengur að drífa mig í sund jafn snemma og ég gerði í fyrravetur. Þá stefndi ég yfirleitt að því að vera komin út úr húsi í síðasta lagi kl. 7.40 en núna er ég 20-30 mínútum seinna í því.
Kosturinn er sá að núna hef ég laugina nánast út af fyrir mig (a.m.k. heila braut alein). Það er gott því þá get ég synt flugsund en núna reyni ég alltaf að enda á því að taka nokkrar flugsundsferðir. Ástæðan? Jú, það styrkir bæði maga- og rassvöðva. Ég áttaði mig nefnilega á því að síðan ég byrjaði að synda reglulega (skriðsund með froskalappir) styrktust lærvöðvarnir all verulega en ýmsir aðrir vöðvar ekki neitt. Þannig að ég keypti mér líka "blöðkur" á hendurnar til að styrkja handleggsvöðvana og svo fattaði ég að flugsundið væri gott fyrir áðurnefnda vöðva. Tel mig ná að dekka það helsta með þessu...
Gallinn er sá að núna missi ég af því að hlusta á konurnar skvaldra í búningsklefanum, þær eru flestar farnar þegar ég kem uppúr.
Þannig að nú þarf ég að velja hvort ég met meira, að sleppa við að synda í braut með 2-3 öðrum (hver og einn á sínum hraða), eða að hafa félagsskap skemmtilegra kvenna. En það viðurkennist hér með að ég sakna þess ótrúlega mikið að hlusta á konurnar spjalla saman og taka þátt í samræðunum þegar svo ber undir. Þannig að líklega kem ég til með að vakna aðeins fyrr á morgnana og færa sundtímann fram um ca. 20 mínútur :-)
Fyrir utan flugsundið er ein önnur nýjung hjá mér í sundinu, ég tók upp á því að fara alltaf í kalda sturtu á eftir heita pottinum og gufunni. Mikið rosalega sem það er hressandi!
laugardagur, 7. október 2006
Nóg að gera
þriðjudagur, 3. október 2006
Lífsgleði
Ein vinkona mín t.d. á við ýmsa erfiðleika að stríða en það er alveg sama hve svart útlitið er hjá henni, alltaf kann hún samt að gleðjast. Hún gleðst yfir fuglunum sem syngja í trjánum, yfir gróðurlyktinni, yfir sólinni sem skín o.s.frv.
Önnur kona sem beinlínis er stútfull af lífsgleði vinnur núna í sundlauginni hér á Akureyri. Hún er alltaf í góðu skapi, býður öllum góðan daginn með bros á vör og sýnir sérdeilis lagni við börn og gamalmenni.
Um helgina var ég t.d. að klæða mig í búningsklefanum og þar var líka móðir með tvo litla stráka. Sá yngri var svangur og þreyttur eftir sundið og mamman ákvað að gefa honum brjóst til að róa hann. Þá varð sá eldri (ca. 3ja ára) afar óþolinmóður og fór að láta öllum illum látum. Kemur þá konan sem áður er getið og fer að spjalla við strákinn. Hún nær athygli hans og hann spyr hvað hún sé að gera (hún var með moppuskaft í hendinni). Hún segist vera að þrífa gólfið en nú ætli hún að gera svolítið annað. Stráksi horfir opinmynntur á hana, spenntur að sjá hvað hún ætlar að gera. Það kemur brátt í ljós, því án þess að hika bregður hún sér "á bak" moppuskaftinu og tekur á rás inni í búningsklefanum. Sælubros breiddist um andlit stráksins og ég gat ekki annað en hlegið hjartanlega, hún var hreint út sagt óborganleg þar sem hún "reið á hestbaki" um klefann brosandi og glöð. Þau spjölluðu svo aðeins meira saman og stráksi varð ekki til meiri vandræða fyrir mömmu sína í þetta sinnið.